Hoppa yfir valmynd
10. mars 2023 Innviðaráðuneytið

Hvítbók um samgöngur ásamt mati á umhverfismatsskýrslu birt í samráðsgátt

Drög að stefnu um samgöngur (hvítbók) ásamt umhverfismatsskýrslu hennar hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar um hvítbókina og umhverfismatsskýrsluna. Frestur til að skila umsögn er til og með 21. apríl 2023. 

Hvítbók um samgöngumál er hluti af stefnumótunarferli samgönguáætlunar. Samgönguáætlun er unnin á grunni laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008. Drög að stefnu (hvítbók) byggja m.a. á stöðumati grænbókarinnar, sem kom út í september 2021 ásamt upplýsingum af opnum samráðsfundum sem haldnir voru fyrir alla landshluta í október 2022 undir heitinu Vörðum leiðina saman. Á fundunum var kastljósinu beint að framtíðaráskorunum landshluta m.t.t. allra málaflokka ráðuneytisins í samgöngu-, sveitarstjórnar-, byggða-, húsnæðis- og skipulagsmálum og unnið út frá hugtakinu búsetufrelsi, sem samnefnara allra stefna og áætlana ráðuneytisins. Var leitað svara við því hverjar væru helstu áherslur til að ná markmiðum um búsetufrelsi og hvaða leiðir væru að því markmiði.

Þá er í drögum að stefnunni einnig byggt á nýjum greiningum, svo sem á stöðu fatlaðs fólks í samgöngum, heildstæðu mati á mikilvægi lendingarstaða á Íslandi út frá öryggishlutverki þeirra, um smáfarartæki, um stöðu reiðvegamála, lokun Reykjanesbrautar. Þá er byggt á drögum að öryggisáætlunum í samgöngum.

Hvítbók er umræðuskjal sem lagt er fram í opnu samráði á netinu. Tilgangurinn er að hvetja til umræðu um stefnuna og möguleg áhrif hennar á íslenskt samfélag til skemmri eða lengri tíma. 

Fyrsta hvítbók um samgöngumál

Um er að ræða fyrstu drög að stefnu (hvítbók) sem tekin hefur verið saman um samgöngumál í samræmi við stefnumótunarferli Stjórnarráðsins og samhæfingu áætlana á sviði byggða-, húsnæðis-, skipulags- og sveitarstjórnarmála. Samhliða hvítbók er birt til kynningar umhverfismatsskýrsla. Skýrslan tekur til stærri framkvæmda sem verða í undirbúningi og skoðun á tímabilinu. Gerður er fyrirvari um að það ræðst af fjármagni og framvindu undirbúnings í hvaða framkvæmdir hægt verður að ráðast á tímabilinu.

Hvítbók birtist í opnu samráðsferli og að því loknu er farið yfir helstu sjónarmið sem fram koma áður en hin endanleg stefna er útfærð. Í kjölfarið verður svo lögð fram á Alþingi tillaga að þingsályktun um samgönguáætlun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum