Hoppa yfir valmynd
10. mars 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný þróunaráætlun Kadeco fellur vel að markmiðum um velsæld og stöðugleika

Bjarni Benediktsson flutti ávarp þegar áætlun Kadeco var kynnt.  - mynd

Ný þróunaráætlun Kadeco fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar, K64, fellur vel að markmiðum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að verja og tryggja efnahagslega velsæld og stöðugleika í ólgusjó undanfarinna ára, að því er fram kom á ávarpi sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, flutti þegar áætlunin var kynnt í gær.

Áætlunin felur í sér heildstæða sýn á uppbyggingu í kringum Keflavíkurflugvöll á ákveðnum þróunarsvæðum sem saman mynda vistkerfi sem einkennist af samvinnu og sambúð iðnaðar, samgangna, nýsköpunar og sjálfbærrar byggðaþróunar. Þróunaráætlunin nær til ársins 2050 en fyrstu skrefin verða tekin strax. Má þar nefna þróun grænna iðngarða við Helguvíkurhöfn, bættar almenningssamgöngur á milli flugvallar og höfuðborgar, tilraunir með eftirspurnardrifnar almenningssamgöngur og uppbygging íbúða á Ásbrú.

„Þessi áætlun fellur vel að þeim markmiðum og stuðlar að því sem ég hef lagt ríka áherslu á – að stækka hagkerfið og vaxa út úr vandanum, sagði Bjarni, en Suðurnesin væru gríðarlega spennandi atvinnusvæði og tækifærin á hverju strái. Áætlunin væri gott dæmi um hvernig ríkið geti með skynsamlegum hætti haft afgerandi árhif til að ýta verkefnum úr vör og leiða samstarf öllum til hagsbóta. „Um leið vil ég hins vegar segja að það er ekki hlutverk eða markmið ríkisins að vera í slíkum verkefnum til langs tíma,“ sagði Bjarni.


Ráðherra ásamt fulltrúum Kadeco, ráðuneytis og sveitarstjórna við kynningu áætlunarinnar.
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, er félag í eigu ríkisins sem hefur það meginmarkmið að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum