Hoppa yfir valmynd
13. mars 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Hvað geta Norðurlöndin lært af þeim aðgerðum sem þau gripu til á vinnumarkaði vegna heimsfaraldursins?

Í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni verður blásið til norrænnar ráðstefnu á Grand Hótel um heimsfaraldur og vinnumarkað. Ráðstefnan fer fram nú á fimmtudag, 16. mars, kl. 9:00-16:00. Samdægurs mun Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, birta viðamikla skýrslu um efnið: Nordic lessons for an Inclusive Recovery? Responses to the Impact of COVID-19 on the Labour Market. Niðurstöður skýrslunnar verða kynntar á ráðstefnunni og er sendinefnd frá OECD væntanleg til landsins vegna þess.

Skýrslunni og ráðstefnunni er ætlað að varpa ljósi á viðbrögð norrænna stjórnvalda og áhrif heimsfaraldursins á vinnumarkað Norðurlandanna með það að leiðarljósi að ríkin verði betur í stakk búin þegar áföll verða á vinnumarkaði í framtíðinni.

Meðal þeirra sem taka þátt í umræðum á ráðstefnunni eru Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Stefano Scarpetta, framkvæmdastjóri félags- og vinnumarkaðsmála hjá OECD.

Ráðstefnustjóri verður Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og doktor á sviði lýðheilsu, stefnumótunar og stjórnunar. Stjórnandi pallborðsumræðna verður Huginn Freyr Þorsteinsson, doktor í heimspeki og stjórnarformaður Vinnumálastofnunar.

Ráðstefnan fer fram á ensku og er öllum opin. Hún er þátttakendum að kostnaðarlausu og skráning fer fram á netinu. 

Einnig verður hægt að fylgjast með ráðstefnunni í beinu streymi á vef Stjórnarráðsins.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum