Hoppa yfir valmynd
14. mars 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tekur þátt í þemaþingi Norðurlandaráðs í Hörpu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson í umræðum nú í morgun ásamt Tryggva Haraldssyni, sérfræðingi í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.  - mynd

Þemaþing Norðurlandaráðs stendur nú yfir í Hörpu undir yfirskriftinni: „Orka og öryggi“. Guðmundur Ingi Guðbrandsson tekur þátt bæði sem félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda. Hluta þingsins verður varið í að fjalla um áherslur Norðurlandaráðs fyrir næstu framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar en Ísland gegnir formennsku í ráðherranefndinni í ár.

Guðmundur Ingi stýrði fundi samstarfsráðherra Norðurlanda í Kaupmannahöfn í janúar sl. þar sem samþykkt var að hefja vinnu við gerð áðurnefndrar framkvæmdaáætlunar. Hluti af þeirri vinnu felur í sér víðtækt samráð, þar á meðal við Norðurlandaráð, og gegnir þingið í Hörpu þar mikilvægu hlutverki.

Á formennskuári Íslands í ráðherranefndinni verður meðal annars unnið að áherslusviðunum þremur í núgildandi framkvæmdaáætlun um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd, auk þess sem sérstök áhersla verður lögð á frið. Á Norðurlandaráðsþinginu í Hörpu mun Guðmundur Ingi sitja sérstaklega fyrir svörum vegna áherslunnar á félagslega sjálfbær Norðurlönd.

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum