Hoppa yfir valmynd
15. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Sundlaugarmenningin og laufabrauðsgerð verði tilnefnt á skrá UNESCO

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, lagði fyrir ríkisstjórn minnisblað um tillögur að tilnefningu laufabrauðsgerðar og sundlaugamenningar á skrá UNESCO yfir menningarerfðir mannkyns.

„Sundlaugarmenning hefur verið samgróin íslenskri þjóðarsál um margar aldir og hefur sjaldan verið jafn blómleg og nú. Ófá þjóðþrifamál eru rædd í laugum landsins. Það er mikil upphefð fyrir hvaða óáþreifanlegu menningu sem er að komast á heimsminjaskrá UNESCO og ég tel að sundlaugarmenningin og laufabrauðsgerð okkar Íslendinga eigi svo sannarlega heima á þeirri skrá,“ segir ráðherra um verkefnið.

Verðugt framlag Íslands

Að beiðni menningar- og viðskiptaráðuneytis var unnin skýrsla þar sem fjallað er um hvernig standa skuli að tilnefningunni. Árið 2006 öðlaðist samningur UNESCO um varðveislu óáþreifanlegs menningararfs gildi hér á landi.

Skýrslan var unnin af sérfræðingi í samningi UNESCO um óáþreifanlegan menningararf hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í skýrslunni er fjallað sérstaklega um skilyrði tilnefningar, tímaramma, ferlið sjálft sem og þau gögn sem þurfa að vera fyrir hendi til að byggja tilnefningu á og fylgja tilnefningunni til UNESCO.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að laufabrauðsgerð og sundlaugamenning eru verðugt framlag Íslands á skrá UNESCO og lagt er til að vinna við undirbúning tilnefninganna verði hafin.  Tilnefningin sjálf og skjalagerð henni tengd þarf að byggja á fullnægjandi heimildum og vera unnin af sérfræðingi.

„Vinna og undirbúningur við tilnefningarnar verður hafin sem fyrst samkvæmt fyrirliggjandi skýrslu og verkáætlun frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og verður sérfræðingur ráðinn til að vinna áfram að tilnefningu laufabrauðsgerðar og sundlaugamenningar á skrá UNESCO um óáþreifanlegan menningararf mannkyns alls,“ segir meðal annars í minnisblaðinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum