Hoppa yfir valmynd
16. mars 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fleiri karlkyns háskólanemar forsenda vaxtatækifæra Íslands

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Á Íslandi vantar níu þúsund sérfræðinga á næstu fimm árum ef vaxtaspár hugverkaiðnaðarins eiga að ná fram að ganga. Í ávarpi sínu á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins sem fram fór í liðinni viku benti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, á mikilvægi samkeppnishæfra háskóla og STEAM greina í þessu samhengi. Sviðsljósinu var sérstaklega beint því að Ísland er eftirbátur annarra OECD landa þegar kemur að fjölda ungs fólks sem lokið hafa háskólanámi. Hér á landi skýrist munurinn eingöngu á lágu hlutfalli ungra karlmanna sem hafa lokið háskólanámi.

Hefur áhrif á allt atvinnulífið

,,Þörf á 9000 sérfræðingum í hugverkaiðnaði á næstu árum hefur áhrif á allt atvinnulífið,” segir Áslaug Arna. ,,Ég hef sett mér nokkur markmið sem ráðherra. Eitt það mikilvægasta er að mannauður hamli ekki vaxtatækifærum Íslands.”

Að meðaltali hafa 42% karlmanna á aldrinum 25-34 ára lokið háskólanámi í OECD löndum. Á Íslandi er þetta hlutfall aðeins 34%. Hlutfall ungra kvenna er það sama á Íslandi og að meðaltali innan OECD og því ljóst að munurinn felst einungis í karlmönnum. Í ljósi þessa benti ráðherra í erindi sínu á mikilvægi þess að stjórnvöld, atvinnulífið, menntastofnanir og aðrir angar samfélagsins leiti leiða til að hvetja drengi á íslandi til að sækja sér menntun. Ef hlutfall ungra karlmanna á Íslandi sem lokið hafa háskólanámi væri 42%, líkt og í OECD, væru spár um þörf á sérfræðingum á næstu fimm árum talsvert öðruvísi. Hærra hlutfall háskólamenntaðra ungra karlmanna myndi bera með sér um 7500 nýja sérfræðinga af þeim 9000 sem vantar eins og staðan er í dag.

,,Þetta er grjóthart efnahagsmál sem ber að horfast í augu við af fullri alvöru,” segir ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum