Hoppa yfir valmynd
17. mars 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Landsteymi um farsæld barna í skólum

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur sett á fót landsteymi um farsæld barna í skólum. Landsteyminu er ætlað að styðja við börn, foreldra og starfsfólk skóla þegar alvarleg mál koma upp, s.s. vegna ofbeldismála eða úrræðaleysis í málum barna með fjölþættan vanda.

Landsteymið er miðlægt úrræði þar sem börn, foreldrar og starfsfólk skóla á öllum skólastigum geta fengið stuðning í erfiðum málum. Landsteyminu er ætlað að brúa bilið á meðan verið er að innleiða ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, undirbúa frumvarp til nýrra laga um heildstæða skólaþjónustu og koma á fót nýrri þjónustustofnun á sviði menntamála. Mikilvægt er að styðja við börn, foreldra, kennara og starfsfólk á öllum skólastigum á meðan verið er að innleiða þessar viðamiklu breytingar á menntakerfinu þegar alvarleg mál koma upp.

Börn, foreldrar og starfsfólk skóla munu geta leitað til landsteymisins sem veitir ráðgjöf og stuðning, jafnt almenna ráðgjöf sem og ráðgjöf á vettvangi. Lögð er áhersla á einföld og skilvirk samskipti við skólasamfélagið og skýrt verklag er varðar móttöku og vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.

„Í samtölum mínum við skólasamfélagið síðustu mánuði hef ég skynjað mikinn stuðning við þær breytingar sem fram undan eru um heildstæða skólaþjónustu en jafnframt sterkt ákall um að við þurfum samhliða að stíga strax inn með öflugri hætti í þeim áskorunum sem þegar eru til staðar. Við erum að setja landsteymið á laggirnar einmitt til að bregðast við þessari þörf, og stíga inn til þess að veita stuðning í alvarlegum málum sem koma upp,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Landsteymið starfar undir forystu Menntamálastofnunar. Bóas Valdórsson sálfræðingur og framkvæmdastjóri Sjónarhóls leiðir teymið en gerður hefur verið samningur við Sjónarhól um stuðning við þetta verkefni. Á næstu dögum verða birtar frekari upplýsingar um hvert megi beina erindum til teymisins en þó vakin athygli á að í neyðartilfellum skal ávallt hringt í 112.

Auk þess að bregðast við bráðavanda og brýnni þörf fyrir stuðning innan skólakerfisins mun Landsteymið hafa það verkefni að taka saman og halda utan um mikilvægar upplýsingar sem munu nýtast stjórnvöldum til þess að bregðast við vanda og móta framtíðarfyrirkomulag samhliða stefnumótun og ritun frumvarpa um breytingar á skólakerfinu. Landsteymið skal þannig hafa yfirsýn yfir mál sem brenna á skólum og sveitarfélögum, kortleggja þau úrræði sem eru til staðar og þörfina fyrir ólík úrræði, greina flöskuhálsa í kerfinu, búa til tengingar á milli kerfa, skýra ferla og byggja upp þekkingu. Gert er ráð fyrir því að verkefni teymisins flytji til nýrrar þjónustustofnunar á sviði menntamála þegar hún hefur störf síðar á árinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum