Hoppa yfir valmynd
17. mars 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samtal hafið við atvinnugreinar um leiðir til að draga úr losun

Vinnustofur voru haldnar með hinum ýmsu atvinnugreinum, hér er fundað með fulltrúum fyrirtækja í fjármálaþjónustu. - mynd

Síðastliðið haust setti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á fót teymi sem ætlað var að vinna með hagsmunasamtökum úr atvinnulífinu um að hefja umfangsmikla og mikilvæga vegferð við skilgreiningu hinna svokölluðu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins. Vegvísum þessum er ætlað að gefa heildræna sýn á þau verkefni sem atvinnulífið er tilbúið að ganga í til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og það hvernig stjórnvöld geta stutt við framgang þeirra. 

13 atvinnugreinar þegar verið skilgreindar

 Þegar hafa 13 atvinnugreinar verið skilgreindar og eru þær flestar komnar vel af stað í vinnunni. Verkefnið felur í sér markmiðasetningu og tillögur að aðgerðum, sem dregið geta úr losun frá hverri og einni atvinnugrein. Er hún unnin á forsendum atvinnugreinanna og af einstaklingum og sérfræðingum innan þeirra greina með stuðningi frá ráðuneytinu.  

Í þessum tilgangi skipaði ráðherra teymi, sem vinnur náið með atvinnulífinu að skilgreiningu áfangaskiptra losunarmarkmiða hverrar atvinnugreinar, en einnig til að skýra verkferla stjórnsýslunnar um greiningu aðgerðanna og innleiðingu þeirra.

Teymið er skipað Sigurði Inga Friðleifssyni sviðstjóra hjá Orkustofnun, Önnu Sigurveigu Ragnarsdóttur sérfræðingi hjá umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytinu, Guðmundi Hauki Sigurðarsyni verkefnastjóra og Ragnheiði Björk Halldórsdóttur sjálfbærniráðgjafa

Áfangskipt losunarmarkmið sett í samráði við atvinnulífið

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% og er unnið að uppfærslu Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum svo því markmiði verði náð. Líkt og fram kemur í stjórnarsáttmála munu stjórnvöld í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira og munu þau markmið byggja vinnu atvinnugeiranna og vera sett í samráði við atvinnulífið.  

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:  Til að ná markmiðunum í loftslagsmálunum þurfum við að vinna saman.  Það gefur góð fyrirheit um framtíðina og er afar ánægjulegt að við séum komin á þennan stað í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Heimsmarkmið SÞ: 13 Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum