Hoppa yfir valmynd
20. mars 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Nám í heyrnartækni í boði í fyrsta sinn hér á landi

Boðið verður upp á tækifæri til náms í heyrnartækni í fyrsta sinn hér á landi næsta haust, í samvinnu Heilbrigðisskóla Fjölbrautarskólans við Ármúla og SydDansk Erhvervsskole í Óðinsvéum. Mikil og vaxandi þörf er fyrir heyrnarfræðinga og sérhæft starfsfólk í heyrnartækni. Heilbrigðisráðuneytið fól því Landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu að skoða leiðir til að skapa námstækifæri á þessu sviði. Ráðuneytið mun veita tveimur til fjórum nemendum styrki til náms í heyrnartækni þegar það hefst næsta haust. Nám í heyrnartækni var kynnt á íslandsmóti iðn- og verkgreina í Laugardalshöllinni dagana 16.-18. mars sl. þar sem grunnskólanemar gátu jafnframt kynnt sér fjölbreytt námstækifæri.

Skortur er á heyrnarfræðingum hér á landi og fyrirsjáanlegt er að þörf fyrir þjónustu sem tengist heyrn og heyrnarskerðingu aukist á komandi árum eftir því sem þjóðin eldist, samhliða aukinna möguleika á meðferð við heyrnarskerðingu. Heyrnarfræðingar vinna að flóknum verkefnum sem tengjast m.a. kuðungsígræðslum og meðferð heyrnarmeina, auk annarra mikilvægra starfa sem krefjast ekki eins mikillar sérhæfingar og falla vel að menntun og þjálfun heyrnartækna. 

Um starfsvettvang heyrnartækna

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) er miðstöð heyrnarþjónustu hér á landi og sinnir greiningu, ráðgjöf, meðferð og endurhæfingu allra með heyrnarvandamál. Starfsfólk HTÍ skimar heyrn allra  barna sem fæðast á Íslandi, annast heyrnarmælingar fólks á öllum aldri og sinnir ráðgjöf um val á heyrnartækjum, stillingar heyrnartækja og margt fleira. HTÍ sinnir öllum alvarlegum tilfellum heyrnarskerðingar og heyrnarleysis og annast m.a. umsjón ígræðsluaðgerða s.s. kuðungsígræðslna. Einkaaðilar sinna í nokkrum mæli sölu heyrnartækja þar sem sinnt er mælingum og ráðgjöf og má reikna með að umfang þeirrar þjónustu fari vaxandi á komandi árum.

Gert er ráð fyrir að nemendur sem hefja nám í heyrnartækni ljúki því á tveimur til þremur árum. Bóklegur hluti námsins mun að hluta fara fram í fjarnámi við Heilbrigðisskóla Fjölbrautarskólans í Ármúla (FÁ) og í staðnámi við skólann í Óðinsvéum. Verkleg kennsla verður á hendi HTÍ í samstarfi við FÁ og verður námsmönnum boðinn verklegur námssamningur við HTÍ meðan á námi stendur.

  • Nám í heyrnartækni í boði í fyrsta sinn hér á landi - mynd úr myndasafni númer 1
  • Nám í heyrnartækni í boði í fyrsta sinn hér á landi - mynd úr myndasafni númer 2
  • Nám í heyrnartækni í boði í fyrsta sinn hér á landi - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum