Hoppa yfir valmynd
27. mars 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherrar Íslands og Grænlands ræddu samstarf á sviði heilbrigðismála

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Mimi Karlsen, heilbrigðisráðherra Grænlands - mynd

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Mimi Karlsen, heilbrigðisráðherra Grænlands, ræddu samstarf þjóðanna á sviði heilbrigðismála á fundi í liðinni viku. Þau eru sammála um mikilvægi samstarfsins og vilja styrkja það enn frekar.

Fundur norrænna heilbrigðis- og félagsmálaráðherra var haldinn í Reykjavík sl. miðvikudag í tengslum við formennskuár Íslands í norræni ráðherranefndinni. Daginn eftir var haldin í Hörpu norræn ráðstefna um geðheilbrigðismál sem hófst með pallborðsumræðum heilbrigðisráðherra Norðurlandaþjóðanna. Willum Þór og Mimi Karlsen nýttu tækifærið til að eiga fund saman um samstarf Íslands og Grænlands í heilbrigðismálum og fór hann einnig fram í Hörpu.

Grænland er strjálbýlasta land veraldar, um 2.166.000 km2 með um 57.000 íbúa. Miklar vegalengdir milli byggða og einangrun margra byggðarlaga skapar margvíslegar áskoranir, m.a. við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Um langt árabil hefur verið samstarf milli Íslands og Grænlands á sviði heilbrigðisþjónustu. Annars vegar er samningur um bráðaþjónustu við íbúa á austurströnd Grænlands og sinnir Sjúkrahúsið á Akureyri nyrstu byggðinni, þ.e. Ittoqqortoormiit í Scoresbysundi en Landspítali tekur á móti bráðatilvikum af Tasiilaq-svæðinu. Það eru einkum nýfædd börn sem þurfa skjóta meðhöndlun og hjartasjúklingar í nauð. Á hverju ári koma einnig nokkur bráðatilfelli af vesturströndinni á Landspítala.

Á fundi heilbrigðisráðherranna Willums Þórs og Mimi Karlsen ræddu þau samstarf Íslands og Grænlands, hverju það hefur skilað og hvernig megi efla það enn frekar. Fram hefur komið að Grænlendingar hyggjast á komandi árum leggja aukna áherslu á fjarlækningar samhliða uppbygingu háraðatenginga. Willum segir ljóst að hröð þróun á sviði heilbrigðistækni skapi margvísleg tækifæri, m.a. á sviði fjarheilbrigðisþjónustu og þar geti löndin tvö án efa notið góðs af því að vinna saman.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum