Hoppa yfir valmynd
27. mars 2023 Dómsmálaráðuneytið

Ný aðgerðaráætlun um meðferð kynferðisbrota fyrir árin 2023 - 2025

Aðgerðaráætlun um meðferð kynferðisbrota fyrir árin 2023 til 2025 liggur nú fyrir. Með þessari aðgerðaáætlun verður áfram unnið markvisst að úrbótum við meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu auk þess að stuðla að bættri upplifun og betri þjónustu við þá sem í hlut eiga, en aðgerðaáætlunin undirstrikar jafnframt mikilvægi þessa málaflokks í huga stjórnvalda.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2021 er kveðið á um að aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota verði áfram fylgt eftir. Vorið 2022 skipaði dómsmálaráðherra starfshóp sem var falið það hlutverk að endurnýja áætlunina. Var hópnum falið að líta til reynslunnar af fyrri áætlun, fyrir árin 2018–2022, og leggja mat á hvar vandinn væri mestur og hvaða áherslur skyldi leggja til í nýrri áætlun.

Í vinnu hópsins var samhljómur um að leggja þyrfti áherslu á bættan málshraða við meðferð kynferðisbrota og á betri upplifun brotaþola og sakborninga af kerfinu en í stjórnarsáttmálanum segir að við endurnýjun aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota verði litið til atriða er varða styttri málsmeðferðartíma.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra
„Sem dómsmálaráðherra hef ég lagt mikla áherslu á baráttuna gegn kynferðisbrotum allt frá mínum fyrsta degi í embætti. Árið 2022 var um 10 stöðugildum bætt við í rannsóknir og saksókn kynferðisbrota og hefur tekist að vinna töluvert niður uppsafnaðan málafjölda hjá lögreglunni. Það er mér því mikið ánægjuefni að leggja fram nýja og metnaðarfulla aðgerðaráætlun til næstu ára gegn kynferðisbrotum.“

Mat á fyrri áætlun

Starfshópurinn fór yfir aðgerðir aðgerðaáætlunar fyrir árin 2018–2022 með það að leiðarljósi hvort aðgerðum áætlunarinnar væri lokið og ef ekki, hvort nauðsynlegt væri að halda viðkomandi aðgerð áfram  í endurnýjaðri aðgerðaáætlun. Að lokum var haldin vinnustofa þar sem lokahönd var lögð á efnisinntak endurnýjaðrar aðgerðaáætlunar. Á vinnustofunni var horft til þess hvar útbóta væri helst þörf innan réttarvörslukerfisins, og hverjar þær væru, sem og hvort hópurinn hefði trú á að hugmyndir að úrbótum myndu bera tilætlaðan árangur og komast til framkvæmda.

Ákveðið var að aðgerðaáætlunin gilti til þriggja ára en ekki fjögurra eins og fyrri áætlun. Ástæðan er að miklar breytingar hafa orðið á síðustu árum í málaflokknum, á lagaumhverfi og við öflun sönnunargagna o.s.frv., m.a. samfara aukinni notkun almennings á samfélagsmiðlum. Taldi hópurinn því að endurnýja þyrfti áætlunina fyrr en þá síðustu svo að aðgerðir gegn kynferðislegu ofbeldi væru viðeigandi hverju sinni og bæru tilætlaðan árangur. Þá er hver og ein aðgerð einnig tímasett sérstaklega, þar sem sumar aðgerðanna má framkvæma á styttri tíma en aðrar.

Eftirfylgni aðgerða

Ein aðgerðin snýr að eftirfylgni. Ákveðið var að ábyrgðaraðilar aðgerða sendi dómsmálaráðuneytinu framvinduskýrslu á sex mánaða fresti og fundir séu haldnir í kjölfarið til þess að yfirfara hvort unnið sé að öllum aðgerðum og hvort aðgerðum hafi verið lokið á réttum tíma. Þá var ákveðið að útbúið verði mælaborð sem gert verði opinbert á vefsvæði Stjórnarráðsins, þar sem fylgjast megi með framgangi aðgerðanna og mælaborðið verði uppfært reglulega. Enn fremur var ákveðið að víðtækara samráð um meðferð kynferðisbrota væri nauðsynlegt þar sem vettvangur væri skapaður til samtals þeirra sem starfa innan kerfisins við ýmsa hagsmunaaðila og aðra sem málið varðar.

Nú þegar hefur verið lagt í mikla vinnu hjá dómsmálaráðuneytinu og undirstofnunum þess á ýmsum sviðum sem aðgerðaráætlunin snýr að, til að mynda um bættan málshraða í réttarvörslukerfinu og forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi. Þá vann starfshópur á vegum ríkissaksóknara skýrslu um málshraða við meðferð kynferðisbrota þar sem lagðar voru til tillögur um aðgerðir og voru þær teknar til greina við endurnýjun aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota. Við gerð áætlunarinnar var einnig litið til tilmæla úr skýrslu GREVIO, eftirlitsnefndar um framfylgd Istanbúlsamningsins, en fyrstu úttekt nefndarinnar lauk hér á landi í nóvember 2022.

Aðgerðaráætlun um  meðferð kynferðisbrota – skýrslan á pdf-formi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum