Hoppa yfir valmynd
28. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Einarður stuðningur Norðurlandanna við Úkraínu

Einarður stuðningur Norðurlandanna við Úkraínu - myndWikimedia Commons

Staða mála á alþjóðavettvangi var rædd á fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í gær. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra stýrði fundinum þar sem Ísland gegnir formennsku í samstarfi utanríkisráðherranna á þessu ári. Einarður stuðningur ríkjanna við Úkraínu og samskipti stórveldanna voru ofarlega á baugi ásamt formennsku Íslands í Evrópuráðinu og málefnum Balkanskaga og Miðausturlanda.

Þórdís Kolbrún gerði grein fyrir gangi formennskunnar í Evrópuráðinu og stöðu undirbúnings vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík í maí. „Mikill samhljómur er meðal Norðurlandanna um mikilvægi leiðtogafundar Evrópuráðsins á þessum umbrotatímum þar sem vegið er að grunngildum ráðsins um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Stuðningur við Úkraínu hefur verið í forgrunni í okkar formennsku þar sem Evrópuráðið getur gengt veigamiklu hlutverki við að draga Rússa til ábyrgðar fyrir voðaverk sín í Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún.

Norðurlöndin styðja öll dyggilega við Úkraínu í varnarbaráttu þeirra. „Við erum öll að búa okkur undir langvarandi átök í Úkraínu þar sem stuðningur Norðurlandanna og bandalagsríkja mun skipta sköpum, bæði á meðan á átökunum stendur og í uppbyggingu landsins í kjölfar átakanna,” segir Þórdís Kolbrún. 

Ráðherrarnir ræddu einnig málefni Ísraels og Palestínu þar sem harðnandi átök valda áhyggjum. Þá var staðan á Balkanskaga einnig til umræðu á fundinum.

Næsti fundur ráðherranna verður á Ísafirði í júní.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum