Hoppa yfir valmynd
28. mars 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Viljayfirlýsing undirrituð um þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. - myndBirgir Ísleifur Gunnarsson

Fjórir ráðherrar undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um þróun á lausnum að rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk. Átaksverkefni verður hleypt af stokkunum og skal stöðumat með formlegum tillögum liggja fyrir í byrjun júní nk. Undir yfirlýsinguna rituðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

 

Átaksverkefnið er liður í innleiðingu og lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn kveður á um réttinn til sjálfstæðs lífs án aðgreiningar í samfélaginu, sem byggir á því að fólk fái að ráða högum sínum sjálft til jafns við aðra. Aðildarríki skulu meðal annars gera ráðstafanir til að tryggja möguleika fatlaðs fólks til að nýta upplýsinga- og samskiptatækni og ýmis önnur upplýsingakerfi til jafns við aðra. Með hraðri framþróun rafrænna lausna og þjónustu hafa skapast ýmsar hindranir fyrir fatlað fólk sem brýnt er að leysa úr og er átaksverkefninu ætlað að mæta því.

 

Mikilvægt skref hefur þegar verið stigið með þróun rafræns umboðsmannagrunns vegna persónulegra talsmanna hér á landi. Persónulegir talsmenn fatlaðs fólks geta nú komið fram fyrir hönd umbjóðenda sinna á mínum síðum á Ísland.is og fengið aðgang að stafrænu pósthólfi þeirra. Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og Stafræns Íslands í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Viðfangsefnið fram undan er að aðlaga umboðsmannagrunninn að fleiri aðilum, stofnunum og fyrirtækjum. Lokamarkmið er að tryggja að þau sem ekki geta notfært sér rafræn auðkenni sjálf hafi aðgengi að gögnum og þjónustu í gegnum persónulegan talsmann sinn.

 

Íslensk stjórnvöld hafa einnig sett rafrænt aðgengi fatlaðs fólks á dagskrá í norrænu samstarfi. Í síðustu viku undirrituðu félags- og heilbrigðisráðherrar Norðurlandanna yfirlýsingu um mikilvægi þess að fatlað fólk fái greiðari aðgang að stafrænum lausnum. Yfirlýsingin var undirrituð á fundi ráðherranna í Reykjavík. 

 

Hvað gerist næst?

 

  • Starfsfólk á vegum réttindagæslu fatlaðs fólks mun vinna í nánu samstarfi við Auðkenni, Stafrænt Ísland og embætti landlæknis auk þess sem víðtækt samstarf verður við aðila sem m.a. nýta rafræna auðkenningu á sínum vefsíðum. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið mun veita átaksverkefninu forstöðu og verður það unnið í samráði við og með aðkomu fatlaðs fólks. 
  • Hafist verður handa við að framkvæma stöðumat og greina fyrirliggjandi hindranir.
  • Tillögur um lausnir skulu liggja fyrir í byrjun júní 2023.
  • Gert er ráð fyrir að verkefnið standi fram í febrúar 2024 og ljúki með lokaskýrslu til félags- og vinnumarkaðsráðherra í mars 2024.

Tengdar fréttir:

 

Ráðherrarnir fjórir með yfirlýsinguna sem undirrituð var í dag. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum