Hoppa yfir valmynd
29. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Viðspyrna gegn verðbólgu með aðhaldi og skýrri forgangsröðun

Viðspyrna gegn verðbólgu með aðhaldi og skýrri forgangsröðun  - myndBirgir Ísleifur Gunnarsson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

„Stóra verkefnið samhliða breyttum aðstæðum er að ná niður verðbólgu sem er helsti óvinur heimila og fyrirtækja í landinu. Aðhald og skýr forgangsröðun er meginstef í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ásamt því að styðja við brýn verkefni og standa vörð um almannaþjónustuna. Ríkisfjármálin þurfa að vinna með peningastefnu Seðlabankans til að ná jafnvægi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra um nýja fjármálaáætlun sem kynnt var í dag.

Fjármálaáætlun til næstu fimm ára sýnir þá stefnu stjórnvalda að beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti til að ná niður verðbólgu og frekari hækkun vaxta með auknu aðhaldi, tekjuöflun og frestun framkvæmda. Á sama tíma er lögð áhersla á að verja grunnþjónustuna, styðja áfram við viðkvæma hópa og vernda lífskjör almennings. Skuldahlutföll ríkissjóðs lækka á tímabilinu og afkoma batnar.

 

Lagður verður á 1prósent tímabundinn viðbótarskattur á lögaðila á árinu 2024. Með því getur atvinnulífið lagt sitt af mörkum eftir stuðning stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur. Auk þess er gert ráð fyrir auknum tekjum af ferðaþjónustu með skattlagningu á skemmtiferðaskip sambærilegri og gistináttagjaldi sem og auknum tekjum af fiskeldi, sjávarútvegi og breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis.

Fjármunum verður forgangsraðað

Gert er ráð fyrir að heildarframlög til málaflokka menningar- og viðskiptaráðuneytisins frá fjárlögum 2023 til ársins 2028 lækki m.a. vegna 2 prósenta aðhaldskröfu á málaflokka (3 prósent á ráðuneytið) auk tímabundinna framlaga sem falla niður á tímabilinu. Það kallar á aukið aðhald og skýra forgangsröðun verkefna. Áfram verður unnið að sameiningu stofnana og nútímalegri rekstri með það að markmiði að ná fram hagræði auk þess sem samningar verða endurskoðaðir.

Í núverandi efnahagsástandi er brýnt að huga vel að neytendamálum. Aukinn þungi verður settur í neytendavernd og unnið að heildarstefnumótun sem áætlað er að ljúki fyrir árslok 2024. 

Aukinn stuðningur við einkarekna fjölmiðla og bætt aðgengi að túlkaþjónustu

Í fjármálaáætlun verður 400 m. kr. veitt til aukins stuðnings við fjölmiðla til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði í samræmi við stjórnarsáttmála. Um er að ræða aðgerðir í tengslum við nýja fjölmiðlastefnu sem stefnt er á að kynna síðar á árinu að loknu samráði við helstu hagaðila.  

 

„Við ætlum okkur að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla sem hefur gjörbreyst á síðustu árum með tilkomu samfélagsmiðla og alþjóðlegra streymisveitna. Með nýjum aðgerðum viljum við skapa hvata og auka samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Við leggjum til skattalegan stuðning við einkarekna fjölmiðla til að tryggja fjölbreytni á þeim markaði í samræmi við stjórnarsáttmála til viðbótar við núverandi styrkjakerfi auk þess að unnið verði að því að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Þá er gert ráð fyrir að 50 m. kr. verður varið í að auka aðgengi að túlkaþjónustu til að bæta lífsgæði fyrir heyrnaskerta og heyrnalausa. Lögð verður fram tillaga til þingsályktunar um íslenskt táknmál og aðgerðaáætlun vegna hennar. 

Innviðir listgreina styrktir 

Starfsumhverfi listamanna og umgjörð starfslauna listamanna verður bætt á tímabilinu. Á undanförnum misserum hefur verið unnið að tillögum í þá veru og nú er komið að því að hrinda fyrsta fasa þeirra til framkvæmdar. Markmið stjórnvalda er að starfslauna- og verkefnasjóðir tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum eða við skapandi greinar, stuðli að meiri fjölbreytni í úthlutunum, auknu og jöfnu aðgengi mismunandi listgreina og raunsærri viðmiðum.

Stofnun tónlistarmiðstöðvar og efling tónlistarsjóðs eru meðal verkefnanna sem kynnt voru þegar frumvarp til laga um tónlist var jafnframt lagt fram á sama tíma og tónlistarstefnan í síðasta mánuði.

„Íslensk tónlist hefur alla burði til að geta orðið stöndugur atvinnuvegur og mun stofnun tónlistarmiðstöðvar ásamt gerð tónlistarstefnu styrkja innviði greinarinnar. Unnið verður að því að auka sýnileika íslenskrar tónlistar á stærstu alþjóðlegu streymisveitunum og tryggja rétthöfum réttlátari hlut,“ segir meðal annars í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.  

Barnamenningarsjóður verður festur í sessi með 100 m.kr. árlegu framlagi ásamt verkefninu List fyrir alla.

Miðstöð menningar og skapandi greina

Áfram verður unnið að því að festa Ísland í sessi sem starfsstöð skapandi greina. Ný stefna hönnunar og arkitektúrs og aðgerðir í hennar nafni miða að því að auka vægi hönnunar í íslensku atvinnulífi og skila vaxandi árangri, fagmennsku og gæðum til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. 

Myndlistarstefnunni verður fylgt eftir, en stefnan felur í sér fjölbreyttan stuðning við listsköpun, menntun og myndlæsi sem styður við myndlistarmenningu og aukna þekkingu og áhuga almennings á myndlist. Stefnan miðar að því að Listasafn Íslands verði eflt í hlutverki sínu sem höfuðsafn og staða húsnæðismála safnsins verður greind með það að markmiði að móta framtíðarsýn fyrir uppbyggingu höfuðsafns á heimsmælikvarða.

Áfram verður unnið að því að leysa húsnæðisvanda Íslenska dansflokksins og tryggja Þjóðleikhúsinu varanlegt æfingahúsnæði. Að auki er unnið að framtíðarfyrirkomulagi óperustarfsemi á Íslandi.  

Ný ferðamálastefna til 2030 og aðgerðaáætlun í haust

Hraður viðsnúningur hefur átt sér stað hjá ferðaþjónustunni og í brottförum erlendra ferðamanna árið 2022 eftir að öllum takmörkunum var aflétt eftir heimsfaraldur. Ferðaþjónustan er ein af stærstu útflutningsgreinum landsins og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar. 

Stefnt er að því að leggja fram nýja ferðamálastefnu til ársins 2030 ásamt aðgerðaráætlun fyrir á haustþingi 2023. Áfram verður lögð áhersla á öflun áreiðanlegra gagna og innviðauppbyggingu ásamt aðgerðum sem miða að því að dreifa ferðamönnum víðar um landið og yfir allt árið. Einnig að auka öryggi, stuðla að öruggri ferðahegðun og leita leiða til að bæta rekstrarskilyrði greinarinnar hér á landi.

Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. 

Nánar má lesa um fjármálaáætlunina hér á vef Stjórnarráðsins

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum