Hoppa yfir valmynd
30. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Íslandsvinahópur bandarískra þingmanna stofnaður

Íslenskir og bandarískir þingmenn í Bandaríkjaþingi í morgun - myndUtanríkisráðuneytið

Stofnfundur sérstaks Íslandsvinahóps meðal þingmanna fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, svokallaðs Iceland Caucus, fór fram í dag. Í forsvari fyrir hópnum eru þau Chellie Pingree, þingkona Demókrataflokksins frá Maine, og Greg Murphy en hann er þingmaður Repúblikanaflokksins frá Norður Karólínu. Átti formleg stofnun vinahópsins sér stað í Rayburn-skrifstofubyggingu Bandaríkjaþings og var utanríkismálanefnd Alþingis viðstödd fundinn en nefndin hefur verið í heimsókn í Washington í vikunni.

Tilgangur vinahópa á Bandaríkjaþingi felst einkum í því að skapa óformlegan samstarfsvettvang fyrir hóp þingmanna sem láta sig varða sérstaka málaflokka eða vináttu við tiltekin ríki. Skrá þarf hópa af þessu tagi til stjórnarnefndar fulltrúadeildarinnar og þurfa tilteknir þingmenn að gangast í ábyrgð fyrir þá. Ýmsar tegundir hópa eru til, m.a. hópar sem aðeins fulltrúar annars stjórnmálaflokksins á Bandaríkjaþingi heyra til, en algengast er með vináttuhópa við einstök ríki, og á það er lögð áhersla, að þingmenn beggja flokka komi að stofnun þeirra.

„Ég fagna tilkomu þessa hóps, þetta er afar jákvætt skref fyrir Ísland,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Það má ætla að hann geti komið í góðar þarfir þegar gæta þarf hagsmuna Íslands í höfuðborg Bandaríkjanna. En svo er líka gaman að fá það staðfest með þessum hætti hversu góðum hug við mætum í höfuðborg Bandaríkjanna og það er sérstaklega ánægjulegt að hægt var að koma stofnfundinum um kring á meðan utanríkismálanefnd Alþingis var í heimsókn í Washington.“

Chellie Pingree frá Maine hefur um langt skeið ræktað samband við Ísland og hefur hún tvívegis flutt á Bandaríkjaþingi frumvarp sem kennt er við Ísland, Iceland Act, og fjallar það um tiltekna tegund vegabréfsáritana sem íslenskum fjárfestum eða viðskiptaaðilum gæfist færi á að sækja um ef frumvarpið hlyti brautargengi. Dr. Greg Murphy heimsótti Ísland í fyrra þegar hann var í hópi þingmanna sem kom til Íslands til að kynna sér orkumál. 

Utanríkismálanefnd Alþingis heimsótti Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, síðast árið 2015. Í heimsókn nefndarinnar nú hefur hún m.a. fundað með Derek Chollet, ráðgjafa Antony Blinken utanríkisráðherra, Mark Mowrey, aðstoðarviðskiptafulltrúa Bandaríkjanna (USTR), öldungadeildarþingmönnunum Lisu Murkowski frá Alaska og Sheldon Whitehouse frá Rhode Island, Tom Kean, formanni Evrópuundirnefndar utanríkismálanefndar fulltrúadeildar þingsins. Þá sótti nefndin fundi í varnarmálaráðuneytinu bandaríska.

  • Frá vinstri: Greg Murphy og Chellie Pingree, þingmenn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings ásamt þeim Bjarna Jónssyni, formanni utanríkismálanefndar Alþingis, og Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra Íslands í Washington - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum