Hoppa yfir valmynd
31. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Pappírslaus fasteignakaup yrðu loksins að veruleika

Pappírslaus fasteignakaup yrðu loksins að veruleika - myndStjórnarráð Íslands

Í dag lagði menningar- og viðskiptaráðherra fram fyrir ríkisstjórn nýtt frumvarp til laga um rafrænar skuldaviðurkenningar. Verði frumvarpið óbreytt að lögum, geta fasteignakaup og bifreiðakaup í fyrsta skipti orðið pappírslaus og öllum lánaskjölum þinglýst rafrænt.

Nýtt lánaform 

Tillögur frumvarpsins eru liður í að fylgja eftir stefnu Alþingis og stjórnvalda um eflingu á stafrænni þjónustu hins opinbera. Verði frumvarpið að lögum mun það einkum hafa áhrif á almenning, lánveitendur og opinbera aðila. Gert er ráð fyrir því að breytingin dragi úr kostnaði fyrir ríkissjóð til lengri tíma.

„Umtalsverður samfélagslegur ávinningur felst í notkun rafrænna skuldaviðurkenninga í stað lánaskjala á pappírsformi, meðal annars fyrir lántaka, fjármálastofnanir, fasteignasölur og sýslumannsembætti, þar á meðal vegna minni tilkostnaðar við umsýslu og þinglýsingar pappírsskjala. Þjóðhagslegur ávinningur af rafrænum þinglýsingum er talinn vera mikill,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra um frumvarpið.

Með frumvarpinu er lagt til að setja heildarlög um nýtt lánaform, svonefndar rafrænar skuldaviðurkenningar, sem ólíkt skuldabréfum verði gefnar út og varðveittar á rafrænu formi. Með frumvarpinu er hins vegar ekki hróflað við réttarreglum um skuldabréf. 

Í frumvarpinu er einnig lagt til að komið verði á fót upplýsingagátt um rafrænar skuldaviðurkenningar, þar sem aðgengilegar verða upplýsingar um efni skuldbindingar samkvæmt rafrænni skuldaviðurkenningu og önnur atriði er hana varða. 

Rekstrarkostnaður greiddur með þjónustugjöldum

Frumvarpið er samið í menningar- og viðskiptaráðuneyti í samráði við stýrihóp um rafrænar þinglýsingar. Hópurinn er skipaður fulltrúum menningar- og viðskiptaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis vegna Stafræns Íslands, sýslumanna og Þjóðskrár Íslands. Til ráðgjafar við gerð frumvarpsins var starfsfólk frá Lagastofnun Háskóla Íslands.

„Að því gefnu að frumvarpið verði samþykkt er gert ráð fyrir að kostnaður vegna innleiðingar og kynningar á breyttu fyrirkomulagi muni vera óverulegur í samanburði við þann ábata sem af honum hlýst. Beinn sparnaður hefur ekki verið reiknaður út en efnahagslegur og samfélagslegur ábati af lagabreytingunni er verulegur þar sem pappírslaus lánaskjöl bjóða upp á minni tilkostnað og umsýslu og meira hagræði fyrir lántaka og lánveitendur. Þá má gera ráð fyrir ábata vegna vaxtamunar, hraðari viðskipta og minni ferðakostnaðar. Ábati fyrir ríkissjóð mun einkum felast í aukinni skilvirkni í störfum sýslumanna og auknum möguleikum á hagræðingu hjá sýslumannsembættum,“ segir í minnisblaði ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum