Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2023 Dómsmálaráðuneytið

Flutningur verkefna til sýslumanns

Dómsmálaráðuneytið hefur undanfarið átt samstarf við önnur ráðuneyti um að efla þjónustu sýslumannsembættanna á landsbyggðinni með auknum verkefnum. Í forgangi undanfarið hefur verið samstarf ráðuneytisins við innviðaráðuneytið um flutning verkefna Innheimtustofnunar sveitarfélaga tengt innheimtu meðlaga o.fl. til sýslumannsins á Norðurlandi vestra, vegna samlegðar við verkefni innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi sem er á ábyrgð embættisins. Lagafrumvarp sem fjallar um verkefnaflutninginn hefur verið lagt fyrir Alþingi og er þar miðað við að verkefni Innheimtustofnunar færist yfir til sýslumanns 1. janúar 2024. (Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, o.fl. (verkefnaflutningur til sýslumanns).

Verkefnið er liður í eftirfylgni ráðuneytisins með aðgerð A.8 í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 og þykir það styðja einkar vel við markmið aðgerðarinnar um að efla opinbera þjónustu í héraði, fjölga atvinnutækifærum og bæta ríkisreksturinn. Væntingar eru um að verkefnaflutningurinn skili í fyrsta lagi bættri þjónustu við meðlagsgreiðendur enda er betra aðgengi að sýslumanni vegna fjölda starfsstöðva embættanna um land allt. Eftir flutning verkefnisins til sýslumanns eiga meðlagsgreiðendur þess kost að geta kært vissar ákvarðanir embættisins til dómsmálaráðuneytisins. Ráðuneytið mun jafnframt hafa skýrt eftirlitshlutverk með málaflokknum og þeim stjórnvaldsákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laganna. Verkefnaflutningurinn mun í öðru lagi fjölga sérhæfðum störfum á landsbyggðinni, enda er markmið aðgerðarinnar meðal annars að styrkja starfsstöðvar sýslumanns á landsbyggðinni með fjölgun stöðugilda. Í þriðja lagi þykir ljóst að ýmsir hagræðingarmöguleikar fylgja breytingunum vegna samlegðar við annan rekstur innheimtumiðstöðvarinnar svo sem yfirstjórn og upplýsingatækni. Þá eru jafnframt tækifæri fólgin í endurskoðun verkferla með tilliti til aukinnar nýtingar tækninnar við framkvæmd innheimtu meðlaga.

Þegar lögin hafa verið samþykkt tekur við frekari undirbúningur yfirfærslunnar og mun þá fjármögnun verkefnisins af byggðaáætlun koma sérstaklega að góðum notum, enda muni ráðuneytið fylgja verkefnaflutningnum úr hlaði í nánu samstarfi við sýslumann, Innheimtustofnun og innviðaráðuneytið.  

Flutningur verkefna Innheimtustofnunar til sýslumanns er eitt af þeim verkefnum sem dómsmálaráðuneytið hefur sett í forgang undanfarið til að fylgja eftir markmiðum aðgerðar A.8 í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036. Gert er ráð fyrir að fregnir af öðrum verkefnum verði kynntar á næstu misserum á vef Stjórnarráðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum