Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tvenn vefverðlaun til Stafræns Íslands

Verkefni á vegum Stafræns Íslands unnu á föstudag tvenn verðlaun á Íslensku vefverðlaununum.

Um er að ræða verkefnin Mínar síður Ísland.is sem vefkerfi ársins og Innskráning fyrir alla sem tæknilausn ársins.

Alls fengu verkefni Stafræns Íslands sjö tilnefningar til verðlaunanna. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra: 

„Það er fagnaðarefni að fá viðurkenningu fyrir þessi verkefni sem miða að því að nýta stafrænar lausnir til að veita betri þjónustu sem á sama tíma er hagkvæm til lengri tíma litið. Kannanir sýna að fólk vill spara sér sporin með því að nota stafræna þjónustu og sömuleiðis eykst stöðugt notkun á Ísland.is, sem er ánægjulegt.“

Tilnefningarnar sjö sem Stafrænt Ísland hlaut voru:

  • Ísland.is appið í flokknum App ársins
  • Ísland.is í flokknum Opinber vefur ársins
  • Réttarvörslugátt í flokknum Stafræn lausn ársins
  • Innskráning fyrir alla í flokknum Tæknilausn ársins
  • Mínar síður Ísland.is í flokknum Vefkerfi ársins
  • Innskráning fyrir alla í flokknum Vefkerfi ársins
  • Umsóknarkerfi Ísland.is í flokknum Vefkerfi ársins

Íslensku vefverðlaunin voru veitt í 22. skipti en það eru Samtök vefiðnaðarins (SVEF), fagsamtök þeirra er starfa að vefmálum á Íslandi, sem standa fyrir verðlaununum.

Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að Ísland verði í fremstu röð í opinberri, stafrænni þjónustu og sýna kannanir að vinnunni miðar vel áfram. Stafræn þjónusta er þegar farin að einfalda líf fólks, spara tíma á sama tíma og þjónustan batnar.

Verkefnastofa um Stafrænt Ísland er hluti af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og er þar unnið að því að bæta stafræna þjónustu hins opinbera.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum