Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2023 Dómsmálaráðuneytið

Ofbeldisgátt 112 fékk tvenn vefverðlaun

Ofbeldisgátt á 112.is fékk tvær viðurkenningar frá Íslensku vefverðlaununum sem veitt voru þann 31. mars. Annars vegar var Ofbeldisgáttin verðlaunuð fyrir aðgengi og hins vegar sem efnis- og fréttaveita ársins 2022.  Ofbeldisgáttin fékk alls fjórar tilnefningar. Í umsögnum dómnefnda var sérstaklega tekið fram að allir samfélagshópar geti nálgast upplýsingar á sinn hátt á vefnum og augljóst að áhersla sé lögð á góða upplifun notenda.

Vefgátt Neyðarlínunnar, 112.is er vefgátt vegna heimilisofbeldis, kynferðisofbeldis, ofbeldis gegn börnum og annars konar ofbeldi þar sem þolendur, aðstandendur og gerendur geta leitað upplýsinga og fundið úrræði gegn ofbeldi. Undanfarið hefur verið unnið að því að bæta við upplýsingum um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu þannig að þau sem verða fyrir kynferðisofbeldi hiki ekki við að leita réttar síns og tilkynni brotin sem fyrst til að lögreglan geti aflað nauðsynlegra sönnunargagna. 

Dómsmálaráðherra hefur samið við Neyðarlínuna um að reka áfram og þróa ofbeldisgátt 112 þannig að 112.is verði sá staður þar sem finna má upplýsingar og úrræði varðandi ofbeldi.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra: „Þegar ofbeldi á sér stað er mikilvægt að allir geti nálgast hratt og vel upplýsingar um þá hjálp og aðstoð sem er til staðar.  Það gildir ekki hvað síst varðandi fólk sem býr við margvíslegar aðgangshindranir.  Því hefur mikil áhersla verið lögð á að ofbeldisgátt 112 sé sem aðgengilegust og er sérstaklega gott að sjá gáttina hljóta þá viðurkenningu.“ 

Viðurkenning sem efnis- og fréttaveita: Ofbeldisgátt á 112.is

Umsögn dómnefndar: „Efni vefsins er borið fram á margvíslegan máta sem gerir það að verkum að vefurinn heldur áhuga notandans og allir samfélagshópar geta nálgast upplýsingarnar á sinn hátt. Uppsetning og hönnun vefsins er smekkleg en ekki síður áhrifamikil. Það er augljóst að sett var áhersla á góða upplifun notenda.“

Viðurkenning fyrir aðgengismál: Ofbeldisgátt á 112.is

Umsögn dómnefndar: „Vefurinn sem fær aðgengisverðlaun að þessu sinni er afar vel að aðgengisverðlaunum SVEF kominn. Hönnun vefsins er í samræmi við alþjóðlega aðgengisstaðla, lógískt er að ferðast um vefinn og hann er laus við algengar hindranir. Einfalt er að ferðast um valmynd og hægt er að komast beint í aðalefni, sjá má að texti, hnappar, fontar og litir hafa verið valdir með hliðsjón af því að gera vefinn sem aðgengilegastan. Virkni í spjalli er einnig mjög góð.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum