Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2023 Matvælaráðuneytið

Samkomulag undirritað um kynbótaverkefni á byggi

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskólans og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra handsala samkomulagið.  - myndDL

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra undirritaði í morgun samkomulag við Landbúnaðarháskóla Íslands um framkvæmd kynbótaverkefnis á byggi til ræktunar á Íslandi. Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor undirritaði samkomulagið fyrir hönd Landbúnaðarháskólans sem gildir til eins árs.

„Tækni í plöntukynbótum hefur fleygt fram á ljóshraða og við viljum nýta okkur þá möguleika til að hraða erfðaframförum svo um munar. Búvísindafólk við Landbúnaðarháskólann mun, í samstarfi við erlenda sérfræðinga, nýta erfðavísindin til að aðlaga bygg og hveiti að íslenskum aðstæðum hraðar en nokkurn óraði fyrir að væri gerlegt fyrir fáum árum,“ sagði matvælaráðherra við þetta tilefni. „Þetta er hluti þeirra stórhuga áforma sem fram eru sett í nýútkominni skýrslu um eflingu kornræktar á Íslandi. Þar er blásið til sóknar. Efling kornræktar styrkir fjölbreyttari matvælaframleiðslu innanlands, eflir hringrásarhagkerfið og eykur bindingu gróðurhúsalofttegunda“.

Verkefnið hefst nú á vormánuðum og eru fyrstu skref þess að reikna nýtt kynbótamat. Í framhaldinu munu starfsmenn Landbúnaðarháskólans þróa erfðamengjalíkön í samvinnu við erlenda sérfræðinga og verður úrval úr þeim síðan prófað innanlands.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum