Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Leiðtogar Evrópuráðsins lýsa yfir áhyggjum af heilsu Navalní

Þungum áhyggjum af hrakandi heilsu rússneska stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní og illri meðferð rússneskra stjórnvalda á honum eru látnar í ljós í yfirlýsingu  sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins, Tiny Kox forseti Evrópuráðsþingsins og Marija Pejčinović Burić, aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins hafa sent frá sér.

„Í samræmi við úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu og ákvarðanir ráðherranefndar Evrópuráðsins ítrekum við ákall þess efnis að Navalní verði tafarlaust látinn laus og undirstrikum skilyrðislausa skyldu Rússlands að framfylgja öllum dómum Mannréttindadómstólsins,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Rúm tvö ár eru liðin frá því að Navalní var fangelsaður í Rússlandi eftir að hafa snúið þangað frá Berlín. Þar hafði hann dvalið í lækningaskyni eftir að honum var byrlað taugaeitur í heimalandi sínu í ágúst 2020. Í yfirlýsingunni er skorað á rússnesk stjórnvöld að tryggja Navalní viðeigandi læknisaðstoð tafarlaust og láta hann lausan í samræmi við úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu.

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum