Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2023 Dómsmálaráðuneytið

Flóttamenn geta tilkynnt stríðsglæpi

Ríkislögreglustjóri og héraðssaksóknari hafa sett upp tilkynningagátt á island.is þar sem flóttafólk frá Úkraínu getur tilkynnt hugsanlega stríðsglæpi. Rafræn eyðublöð á ensku og úkraínsku hafa verið gerð aðgengileg og leitast verður við að afhenda flóttafólki bæklinga þessa efnis um leið og það kemur til landsins.

Flóttamenn eru spurður hvort þeir hafi orðið fyrir eða orðið vitni að stríðsglæpum í Úkraínu frá upphafi stríðsins þann 24. febrúar árið 2022. Upplýsingar þar að lútandi gætu reynst dýrmætar í rannsókn á meintum stríðsglæpum í Úkraínu. Eins og er hjá öðrum Evrópuþjóðum þá munu stjórnvöld meta gögnin sem berast í tilkynningum af þessu tagi og ef tilefni er til, deila þeim með Alþjóðlega sakamáladómstólnum. Hér á landi er það verkefni héraðssaksóknara að taka við tilkynningum af þessu tagi.

Hægt er að tilkynna um stríðsglæpi á island.is og er hægt að velja þar um tvö tungumál þ.e. ensku eða úkraínsku.

Tilkynnt um stríðsglæpi á island.is

Leiðtogafundur og stuðningur við Úkraínu

Á fjórða leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík 16.-17. maí verður stuðningur við Úkraínu og ábyrgðarskylda eitt helsta umfjöllunarefnið. Á fundi dómsmálaráðherra í London í mars var samþykkt að styrkja Alþjóðlega sakamáladómstólinn vegna málefna Úkraínu og sagði Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra við það tilefni:

„Kanna þarf allar leiðir til þess að réttlætið nái fram að ganga, án þess að grafa undan þeim stofnunum sem þegar eru til staðar. Þess vegna styður Ísland hugmyndir um stofnun Alþjóðlegrar saksóknarmiðstöðvar vegna glæpa gegn friði í Úkraínu, með það að markmiði að samræma rannsókn og varðveislu sönnunargagna vegna komandi réttarhalda.

Samstaða með Úkraínu er eitt meginþema í formennskutíð Íslands í Evrópuráðinu og það er von okkar að niðurstaðan af fjórða leiðtogafundi Evrópuráðsins, sem haldinn verður í Reykjavík, verði í þágu Úkraínu. Það er von okkar að formleg tjónaskrá þar sem safnað verður og haldið til haga yfirliti yfir bótakröfur, verði að veruleika á leiðtogafundinum í Reykjavík.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum