Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2023 Forsætisráðuneytið

Drög að grænbók um sjálfbært Ísland til kynningar í Samráðsgátt

Drög að grænbók um sjálfbært Ísland hafa verið birt í Samráðsgátt. Um er að ræða fyrsta skrefið í mótun stefnu Íslands um sjálfbæra þróun.

Drögin eru afurð víðtæks samráðs sem fram hefur farið á vettvangi Sjálfbærniráðs undanfarnar vikur og mánuði. Í Sjálfbærniráði eiga sæti um 80 fulltrúar sem koma frá Alþingi, ríkisstjórn, sveitarfélögum, atvinnulífinu, samtökum launafólks og frjálsum félagasamtökum.

Málefni sjálfbærrar þróunar varða öll svið samfélagsins, málefnasvið allra ráðuneyta, verkefni sveitarfélaga, almenning, atvinnulíf og aðra hagaðila með beinum og óbeinum hætti. Öflug samvinna og reglulegt samráð um sjálfbæra þróun er því forsenda árangurs til framtíðar.

Drögin að grænbókinni leggja grunn að mótun stefnu Íslands um sjálfbæra þróun til næstu ára. Í grænbókinni er að finna stöðumat og lýsingu á þeirri vinnu sem unnið er að á sviði sjálfbærrar þróunar á Íslandi. Einnig eru þar kynnt drög að lykilviðfangsefnum, framtíðarsýn og áherslum við gerð stefnunnar.

Þessa dagana stendur yfir fundaferð um landið þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra býður til opins samráðs um sjálfbæra þróun á Íslandi. Fundirnir og umræður sem skapast á þeim munu nýtast við frekari vinnu við grænbókina og stefnumótun um sjálfbært Ísland.

Drögin að grænbók um sjálfbært Ísland verða opin til umsagnar til 29. maí nk.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum