Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðamálin í brennidepli á ráðstefnu síðasta vetrardag

Alþjóðamálin í brennidepli á ráðstefnu síðasta vetrardag - myndKristinn Ingvarsson

Veigamiklir valkostir og afdrifaríkar ákvarðanir sem ríki heim og almenningur standa stöðugt frammi fyrir voru ofarlega á baugi í opnunarávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur á ráðstefnunni Alþjóðasamvinna á krossgötum sem fram fór í vikunni.

Árleg ráðstefna Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Norræna hússins í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála fór fram í Veröld - húsi Vigdísar 21. apríl, síðasta vetrardag, undir yfirskriftinni Alþjóðasamvinna á krossgötum – hvert stefnir Ísland? Að venju voru umfjöllunarefnin margvísleg, þar á meðal norræn samvinna í breyttu öryggisumhverfi, málefni norðurslóða og hlutverk Evrópuráðsins.

Utanríkisráðherra flutti venju samkvæmt opnunarávarp ráðstefnunnar þar sem hún ræddi þær áskoranir sem ríki heim standa frammi fyrir, þá valkosti sem á hverjum tíma standa til boða og þær afleiðingar sem ákvarðanir stjórnmálafólks hafa í för með sér.

„Stundum eru valkostirnir á krossgötunum afgerandi og frekar augljóst í hugum flestra okkar hvaða leið skuli velja. Þegar Rússland hóf allsherjarinnrás sína í Úkraínu held ég að fáum hafi komið annað til hugar en að það væri réttur og augljós kostur að velja þá leið að standa með Úkraínu og taka afstöðu gegn Rússlandi,“ sagði Þórdís í ávarpinu en benti svo á að stundum væru valkostirnir á krossgötunum ekki jafn afgerandi og aðgerðaleysi ekki síður en aðgerðir gæti verið afdrifaríkt. Dæmi um það væru viðbrögð við innlimun Rússa á Krímsskaga 2014 og innrás þeirra í Georgíu 2008.

„Ég vil trúa því að lærdómurinn sem helst blasir við þegar við hugsum um allar þessar krossgötur undanfarinna ára sé hugsanlega sá að í stað þess að stara ofan í jarðveginn og velja þá leið sem lítur út fyrir að vera þægilegri eða greiðfærari til skamms tíma þá sé líklegra til árangurs að horfa til himins og fylgja þeim leiðarstjörnum sem við trúum að vísi okkur í rétta átt,“ sagði utanríkisráðherra í ávarpinu.

Ráðstefnunni lauk með umræðum fulltrúa allra flokka á Alþingi um utanríkisstefnu Íslands og tók Þórdís Kolbrún þátt í þeim umræðum.

Á vefsíðu Alþjóðamálastofnunar er upptaka af ráðstefnunni í heild sinni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum