Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2023 Innviðaráðuneytið

Rampur númer 450 í Garðabæ

Almar Guðmundsson, Hákon Atli Bjarkason og Mar­grét Rut Eddu­dótt­ir sáu um borðaklippingu.  - myndGolli

Rampur númer 450 í verkefninu Römpum upp Ísland hefur verið settur upp í Garðabæ. 36 fyrirtæki hafa fengið nýja eða uppfærða rampa í Garðabæ á vegum verkefnisins á undanförnum dögum. 450 rampar hafa verið settir upp á landsvísu frá því að verkefnið var sett af stað en markmiðið er 1500 á fjórum árum. 

Rakarastofa Garðabæjar fékk þann heiður að fá ramp númer 450, þeir Sævar Jóhann Sigursteinsson og Hlynur Guðmundsson, hársnyrtar, reka stofuna og buðu þeir Hákoni Atla Bjarkasyni íbúa á Garðatorgi að vígja rampinn formlega á föstudag. Meðal þeirra sem hafa fengið uppfærslur á römpum í Garðabæ eru hársnyrtistofur, verslanir, kaffihús og ísbúð. 

Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar þakkaði Römpum upp Ísland fyrir framlag sittí bænum í tilkynningu frá sveitarfélaginu „Römpum upp verkefnið er gott og löngu tímabært framtak og mikilvægt jafnréttismál. Að tryggja gott aðgengi er samfélagslegt verkefni okkar allra,“ segir Almar.

Nánar um verkefnið

Verkefnið Römpum upp Ísland hefur þann mikilvæga tilgang að greiða aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, afþreyingu og þátttöku og stuðlar þannig að auknu jafnrétti allra. Römpunum er ætlað að veita hreyfihömluðum aukið aðgengi að verslun og þjónustu.

Stofnaður var sjóður með aðkomu opinberra aðilia og fyrirtækja í einkaeigu sem stendur straum af kostnaði fyrir verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu.  Verkefnið verður framkvæmt í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga og skipulagsyfirvalda. Haraldur Þorleifsson, stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins. 

Römpum upp Ísland sem er í beinu framhaldi af Römpum upp Reykjavík. Árið 2021 voru 100 rampar settir upp í verkefninu Römpum upp Reykjavík. Eftir að verkefnið var útvíkkað sem Römpum upp Ísland hafa rampar hafa verið settir upp víða um land. Fyrsti rampurinn í landsverkefninu var opnaður í Hveragerði í maí 2022. 

Innviðaráðuneytið og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga eru meðal helstu styrktaraðila verkefnisins en ýmis fyrirtæki og einstaklingar hafa lagt því lið með fjárframlagi og vinnu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum