Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Áyktun um samstarf Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins samþykkt

Salur allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. - myndViktor Sidorov/iStock

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær ályktun um samstarf Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins með 122 atkvæðum. Ísland og Írland leiddu í sameiningu samningaviðræðurnar um ályktunardrögin en Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu af Írlandi í nóvember síðastliðnum. 

Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi  Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, lagði ályktunardrögin fyrir allsherjarþingið og flutti jafnframt ræðu fyrir hönd 51 ríkis sem gerðist meðflytjandi að ályktuninni.

„Rík hefð er fyrir samvinnu Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins sem hafa þá sameiginlegu sýn að vernda og efla stöðu grundvallarmannréttinda í heiminum, svo sem lýðræðis og réttarríkisins,“ sagði Jörundur meðal annars í ræðu sinni.

Ályktunin, sem lögð er fyrir allsherjarþingið annað hvert ár, hefur að jafnaði verið samþykkt samhljóða en í ár kallaði Rússland eftir atkvæðagreiðslu sökum tilvísana í innrás Rússlands í Úkraínu og brottreksturs úr Evrópuráðinu. Einungis Rússland, Belarús, Nikaragúa, Norður-Kórea og Sýrland kusu gegn ályktuninni en 18 ríki sátu hjá. Einnig var sérstaklega kosið um málsgreinina sem vísar til innrásarinnar og brottreksturs Rússlands, sem studd var af 81 ríki gegn tíu en 48 sátu hjá.

  • Áyktun um samstarf Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins samþykkt - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum