Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð hafa samið um verkefni í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, ásamt Jorodd Asphjell, forseta Norðurlandaráðs, Karen Ellemann, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, og fleirum á þemaþingi Norðurlandaráðs í Hörpu í mars sl. Hluta þingsins var varið í að fjalla um áherslur Norðurlandaráðs fyrir næstu framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar. - mynd

Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð hafa samið um verkefni í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs samþykkti samninginn í mars og í gær samþykktu norrænu samstarfsráðherrarnir hann. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, er samstarfsráðherra Norðurlanda í ríkisstjórn Íslands.

Framtíðarsýn okkar 2030, sem norrænu forsætisráðherrarnir samþykktu árið 2019, myndar umgjörð norræns samstarfs. Framtíðarsýnin kveður á um að Norðurlöndin eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Miklar breytingar verða gerðar á fjárveitingum 2024 til þess að styðja við hin þrjú stefnumarkandi áherslusvið framtíðarsýnarinnar: Félagslega sjálfbærni, samkeppnishæfni og ekki síst græn umskipti.

Aukinn stuðningur við mennta- og menningarsvið

Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin hafa samið um verkefni í fjárhagsáætluninni og meðal annars komið sér saman um að auka framlög til mennta- og menningarsviðs. Samningurinn er upp á 20,5 milljónir danskra króna og í honum felst að 10,5 milljónir danskra króna verði veittar til frjálsra félagasamtaka og borgarasamfélagsins. Þá verður 8 milljónum danskra króna veitt til helstu norrænu aðila á sviði mennta- og menningarmála. Loks er einnig lögð áhersla á norræna menningarmiðlun utan Norðurlanda. Samningurinn felur það jafnframt í sér að auðveldara verður fyrir viðeigandi aðila að sækja um fjárstyrki.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda: Ég hef átt mjög ánægjulegar og uppbyggilegar viðræður við Norðurlandaráð og það hefur skilað sér í samningi sem er í anda framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar og tekur jafnframt mið af óskum og sjónarmiðum Norðurlandaráðs. Samningurinn eflir norrænar stofnanir. Jafnframt er gert ráð fyrir fjárveitingum til þeirra sem vinna að norrænum málefnum, ekki aðeins á Norðurlöndum heldur einnig utan þeirra.“

Jorodd Asphjell, forseti Norðurlandaráðs: „Niðurstaða viðræðnanna ber vott um að Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin séu samstíga í því að árið 2030 skuli Norðurlönd vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Jafnframt er samningurinn byggður á sameiginlegum skilningi beggja aðila á mikilvægi menntunar og menningar í þessu tilliti.“

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands: 

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum