Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2023 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin fundaði með ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Frá fundi ríkisstjórnarinnar með ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í apríl 2023. - mynd

Ríkisstjórn Íslands átti í dag fund með ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í Safnahúsinu. Á fundinum kynntu fulltrúar ungmennaráðsins tillögur sínar og áherslur er varða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig þau sjá fyrir sér að staðið verði að framgangi þeirra hér á landi.

Tillögurnar eru níu talsins og dreifast þær á þrjú málefnasvið; umhverfis- og loftslagsmál, jafnréttis- og mannréttindamál og skóla- og menntamál. Að aflokinni kynningu ungmennanna áttu ráðherrarnir samtal við þau um sýn þeirra á verkefnin fram undan sem lúta að heimsmarkmiðunum.

Tillögurnar, sem lesa má í heild hér, munu í framhaldinu verða birtar í landsrýniskýrslu stjórnvalda um innleiðingu heimsmarkmiðanna á Íslandi (e. Voluntary National Review) sem kynnt verður á ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin í júlí á þessu ári.

Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna var stofnað árið 2018 og hefur það að markmiði að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði meðal jafningja sem og samfélagsins í heild sinni. Í ráðinu eru tólf fulltrúar hvaðanæva af landinu, á aldrinum 13-18 ára. Ráðið kemur saman nokkrum sinnum á ári og fundar að öllu jöfnu með ríkisstjórn árlega.

Hægt er að fylgjast með störfum ungmennaráðsins á Facebook-síðu þess.

  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heilsar upp á fulltrúa ungmennaráðsins. - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum