Hoppa yfir valmynd
3. maí 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Framleiðni dregist saman en kaupmáttur aukist


Framleiðni í íslenska hagkerfinu minnkaði um 1% árið 2022 og um 7-8% í helstu vaxtargreinum þjóðarbúsins, ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Þrátt fyrir þetta hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist, en frá því að landsframleiðsla á mann náði hámarki árið 2018 nemur aukningin 6%.

Þetta kom fram í kynningu fjármála- og efnahagsráðherra á stöðu hagvaxtar á Íslandi á ríkisstjórnarfundi í vikunni. Fram kom að aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna skýrist ekki síst af auknum bóta- og lífeyrisgreiðslum auk skattalækkana. Vaxtalækkanir í faraldrinum juku einnig ráðstöfunartekjur í tölum Hagstofunnar.

Aukning ráðstöfunartekna umfram vöxt framleiðni á þátt í miklum viðsnúningi á viðskiptajöfnuði úr afgangi í halla. Aðhaldssöm hagstjórn er þess vegna mikilvæg til þess að tryggja að hagþróun verði aftur sjálfbær að þessu leyti. Til þess getur kaupmáttur ráðstöfunartekna ekki aukist umfram framleiðnivöxt, en spár bæði innlendra og erlendra aðila gera ráð fyrir að hann verði hóflegur næstu árin í takti við nágrannaríki.

Þótt hagvöxtur í heild hafi verið umtalsverður hér á landi er hann nær alfarið drifinn af fjölgun íbúa. Landsmönnum fjölgaði um 9% milli upphafs ársins 2019 og 2023, á sama tíma og meðaltal innan OECD var 2%. Landsframleiðsla á mann er aftur á móti enn 1-2% minni en fyrir heimsfaraldurinn og nær ekki fyrra stigi fyrr en 2025 samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fram kom í kynningu ráðherra að hagvöxtur sem borinn er uppi af miklum aðflutningi vinnuafls en litlum framleiðnivexti skapi áskoranir fyrir efnahagsstefnuna. Minni framleiðnivöxtur dregur úr vaxtargetu hagkerfisins og þeim skatttekjum sem ríkissjóður getur vænst að óbreyttu. Útgjaldavöxtur hins opinbera þarf því til lengdar að væri lægri en ella ef tryggja á sjálfbærni opinberra fjármála.

Að sama skapi setur framleiðniþróun skorður við þær launahækkanir sem hagkerfið getur staðið undir án þess að aukinn verðbólguþrýstingur myndist. Aukin fjárfesting og bætt nýting þess sem notað er við framleiðsluna eykur framleiðnivöxt. Efnahagsumbætur, þ.m.t. einföldun regluverks, bætt virkni skattkerfis og fjárfesting í menntun, rannsóknum og þróun getur stutt við hagvöxt og þar með styrk hagkerfisins til frambúðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum