Hoppa yfir valmynd
7. maí 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lilja fundaði með framkvæmdastjóra Evrópuráðsins í Strassborg

Lilja Dögg Alfreðsdóttir og  Marija Pejčinović Burić - mynd

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra fundaði með Mariju Pejčinović Burić, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins í Strassborg á föstudag. Ísland fer með formennsku í Evrópuráðinu og er svokallaður Íslandsdagur haldinn í Strassborg 6. maí í aðdraganda leiðtogafundarins í Reykjavík.

Á fundinum ræddu þær um undirbúning leiðtogafundarins og menningardagskrá Íslands. Ráðherra þakkaði frú Burić fyrir stuðning hennar við formennsku Íslands. Á umrótatímum skipti máli að sýna stuðning og samstöðu við Úkraínu sem væri jafnframt ein af megináherslum í formennskutíð Íslands. Lilja sagði frá staðfestu íslenskra stjórnvalda að viðhalda íslenskunni, árangri máltækniáætlunar og samstarfi við Open AI.

Þá ræddu þær um nýútkoma skýrslu um hnignun lýðræðis í Evrópu en grunngildi Evrópuráðsins eru mannréttindi, mikilvægi sáttmála Evrópuráðsins, svo sem Faro rammasamninginn um gildi menningararfleifðar fyrir samfélagið og Nicosia samninginn um afbrot í tengslum við menningarverðmæti. Frú Burić vakti einnig athygli á nýju átaki þess efnis sem hleypt verður af stokkunum í október.

„Eitt af umfjöllunarefnum leiðtogafundarins verður tjáningarfrelsi og öryggi blaðamanna og vorum við sammála um mikilvægi fjölmiðla fyrir lýðræðisþróun,“ sagði menningar- og viðskiptaráðherra.

Evrópuráðið samanstendur af 46 aðildarríkjum og hefur staðið að gerð um 200 alþjóðasamninga. Aðalframkvæmdastjóri er valinn af Evrópuþinginu til fimm ára í senn og er yfirmaður Evrópuráðsins. Undirstofnanir Evrópuráðsins eru m.a. ráðherranefnd Evrópuráðsins, Mannréttindadómstóll Evrópu og Evrópuráðsþingið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum