Hoppa yfir valmynd
10. maí 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Íslenskir vísindamenn tilnefndir sem uppfinningamenn ársins í Evrópu 2023

Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson, prófessorar emeritus við Háskóla Íslands hafa þróað nýja tækni í augnlyfjagerð sem m.a. gerir kleift að nota augndropa til meðhöndlunar á sjúkdómum í sjónhimnu. Með tækninni er unnt að flytja lyf í formi augndropa í afturhluta augans í stað þess að nota sprautunálar. Fyrir þessa uppfinningu eru Þorsteinn og Einar komnir í úrslit fyrir uppfinningamenn Evrópu í flokki rannsókna. Alls voru 600 uppfinningamenn eða teymi tilnefnd í ár.

Þorsteinn og Einar eru meðal þriggja uppfinningamanna í úrslitum. Tilkynnt verður um verðlaunahafa og fleiri verðlaunahafa Evrópsku einkaleyfastofunnar á verðlaunaafhendingu sem fer fram 4. júlí nk. í Valencia á Spáni. Viðurkenningin er veitt framúrskarandi frumkvöðlum fyrir uppfinningar sem hlotið hafa einkaleyfi í Evrópu. Samhliða verðlaunaafhendingu verða veitt vinsældaverðlaun þar sem almenningur getur kosið þá hugmynd sem þeim líst best á. Hægt er að kjósa Þorstein og Einar með því að smella hér.

Betra aðgengi að meðferð með nýrri tækni

Meðferðin sem Þorsteinn og Einar hafa þróað getur meðhöndlað sjóndepilsbjúg af völdum sykursýki (DEM) án inngrips og bætir þannig lífsgæði sjúklinga sem þjást af sjúkdómnum í sjónhimnu. Samkvæmt Alþjóðlegu sykursýkissamtökunum (IDF) þjást um 37 milljónir manna um allan heim af sjóndepilsbjúg af þessu tagi og er það helsta orsök blindu af völdum sykursýki. Tækni Þorsteins og Einars kemur lyfjum á vatnsleysanlegt form og gerir meðferð þannig aðgengilega fyrir stærri hóp sjúklinga.

Einar og Þorsteinn vonast til þess að ný tækni umbylti lyfjameðferð við sjónhimnusjúkdómum sem eru meðal helstu orsaka blindu. Aðgengi að lyfjameðferð takmarkast við aðstöðu og mannafla til að sprauta lyfjum í auga eða setja lyfjahylki inn í auga. Meðferð með augndropum bætir þannig aðgengi bæði í ríkum löndum og þróunarlöndum þar sem fjöldi sykursjúkra er mikill og heilbrigðisþjónusta takmörkuð. Þar að auki nýtist tæknin til að bæta lyfjameðferð í framhluta auga.

Evrópsku nýsköpunarverðlaunin

Evrópsku nýsköpunarverðlaunin (European Inventor Award) eru ein virtustu verðlaunin á sviði nýsköpunar í Evrópu. Evrópska einkaleyfastofan (EPO) veitti verðlaunin fyrst árið 2006 með það að markmiði að heiðra einstaklinga og teymi sem fundið hafa lausnir við einhverjum af stærstu áskorunum okkar tíma. Óháð dómnefnd samansett af aðilum sem áður hafa komist í úrslit velur þau sem komast í úrslit og verðlaunahafa. Við mat á tilnefningum er litið til tæknilegrar framþróunar, þróunar samfélags og sjálfbærni og hagsældar.

 

  • Íslenskir vísindamenn tilnefndir sem uppfinningamenn ársins í Evrópu 2023  - mynd úr myndasafni númer 1
  • Íslenskir vísindamenn tilnefndir sem uppfinningamenn ársins í Evrópu 2023  - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum