Hoppa yfir valmynd
12. maí 2023 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðuneyti fór að lögum varðandi umsóknir um ​ríkisborgararétt

 

 

Dómsmálaráðuneytið fór þess á leit við Lagastofnun Háskóla Íslands að stofnunin tæki saman lögfræðilegt álit um beitingu þingskaparlaga í tengslum við beiðnir þingsins um umsagnir vegna umsókna um veitingu ríkisborgararéttar með lögum. Álit Lagastofnunar barst ráðuneytinu 10. maí sl. og er það afdráttarlaust í neikvæðri afstöðu sinni til spurningarinnar hvort rétt sé og eðlilegt að beita 51. gr. laga um þingsköp Alþingis þegar þingið aflar umsagnanna frá stjórnvöldum.

Forsaga málsins nær allt aftur til ársins 2018 og felur m.a. í sér að umboðsmaður Alþingis gerði athugasemd við langan málsmeðferðartíma og innti ráðuneytið eftir viðbrögðum um hvernig það hygðist bregðast við til að stytta hann. Tafir á umsögnum um umsóknir voru ekki síst til komnar vegna þess að afgreiðsla umsagna sem fylgja áttu umsóknum til Alþingis voru settar í forgang og því hafði röð umsækjenda um sama rétt hjá Útlendingastofnun lengst úr hófi. Ráðuneytið lagði í framhaldi af því fyrir Útlendingastofnun að leggja allar umsóknir um ríkisborgararétt að jöfnu og afgreiða þær í þeirri röð sem þær voru lagðar fram, hvort sem umsókn var beint til Alþingis eða Útlendingastofnunar.

Frá Alþingi komu fram þau sjónarmið að þingið gæti byggt þessar umsagnarbeiðnir á lögum um þingsköp Alþingis, en ekki lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Á þessum grunni gæti þingnefndin krafist þess að þessar umsagnir yrðu unnar og afhentar á einni viku. Ráðuneytið hafði aftur á móti ávallt talið liggja skýrlega fyrir að um afgreiðslur umsókna um íslenskan ríkisborgararétt gildi lög nr. 100/1952 um íslenskan ríkisborgararétt og leitaðist við að tryggja að eftir þeim væri farið við vinnslu umsókna. Með veitingu umsagnar er nánar tiltekið átt við umsagnir sem Útlendingastofnun og lögreglan veita og afhenda þingnefnd, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt. Laut álitaefnið að því hvort rétt og eðlilegt væri að beita 51. gr. laga um þingsköp Alþingis þegar þingið aflar umsagnanna frá stjórnvöldum og þá þannig að unnt væri að krefjast umsagna innan sjö daga. Það myndi þá hafa þær afleiðingar að nauðsynlegt væri að taka umsóknir til þingsins fram fyrir þær sem lagðar hafa verið fram hjá Útlendingastofnun.

Lagastofnun Háskóla Íslands tók að sér að semja lögfræðilegt álit um þetta í tengslum við beiðnir þingsins um umsagnir vegna umsókna um veitingu ríkisborgararéttar og rituðu álitsgerðina þeir dr. Hafsteinn Dan Kristjánsson lektor og Hafsteinn Þór Hauksson dósent. Niðurstaða þeirra var afdráttarlaus.

„… þegar Útlendingastofnun sinnir hlutverki sínu samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um ríkisborgararétt […] gilda stjórnsýslulög ekki um málsmeðferðina. Á hinn bóginn gildir óskráð meginregla stjórnsýsluréttar um málshraða. 
Með vísan til alls framangreinds er það álit undirritaðra að Alþingi sé ekki rétt að beita 51. gr. þingskapalaga nr. 55/1991 þegar óskað er eftir umsögnum stjórnvalda í tilefni af umsóknum um veitingu ríkisborgararéttar með lögum samkvæmt 6. gr. laga um ríkisborgararétt.“

 

Álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands á pdf-formi. 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum