Hoppa yfir valmynd
16. maí 2023 Innviðaráðuneytið

Ný skipaskrá og lögskráning sjómanna

Samgöngustofa hefur tekið í notkun nýtt tölvukerfi fyrir skipaskrá og lögskráningu sjómanna sem fengið hefur nafnið Skútan. Hún leysir af hólmi fimm tölvukerfi sem að stofni til eru frá árinu 2002. Í tilkynningu frá Samgöngustofu segir að Skútan sé nútímalegri og notendavænni að öllu leyti. Auðveldara verður að uppfæra hana að þörfum notenda og lagalegum kröfum. Jafnframt skapast möguleiki á því í framtíðinni að sjómenn geti nálgast upplýsingar um sjálfan sig í gegnum island.is, t.d. um sína menntun og þjálfun, atvinnuskírteini sín og gildistíma þeirra, siglingatíma og öryggisfræðslu sem þeir hafa lokið og hvenær þarf að endurnýja hana.

Skútan er notendastýrð og er skipaskráin aðgengileg skoðunar- og eftirlitsaðilum skipa til innskráningar og opinberum aðilum og fyrirtækjum sem hlutverks síns vegna þurfa að hafa aðgang að henni. Jafnframt er öllum frjálst að sækja um lesaðgang að skipaskrá gegn greiðslu gjalds skv. gjaldskrá Samgöngustofu. Lögskráning sjómanna er aðeins aðgengileg menntastofnunun til innfærslu á námi og námskeiðum sem sjómenn hafa lokið og þeim sem hafa aðgang til að lögskrá á skip eftir því sem útgerð ákveður hverju sinni að undangenginni umsókn til Samgöngustofu (nú um 3200 einstaklingar). Á grundvelli persónuverndarsjónarmiða geta aðeins aðilar sem hafa lögvarða hagsmuni sótt um lesaðgang að lögskráningu sjómanna og á það einkum við um opinbera eftirlitsaðila og stéttarfélög sjómanna.

Skipaskrá geymir upplýsingar um hvaða skip eru á skipaskrá, allar tækniupplýsingar um skipin og búnað þeirra, skoðanir og eftirlit á skipum og skipsbúnaði, útgáfu skips- og haffærisskírteina og gildistíma þeirra.

Með Skútunni eru gerðar breytingar á heildarfyrirkomulagi skoðunar skipa. Skip fá úthlutað afmælisdagsetningu og má skoðun fara fram allt að þremur mánuðum fyrir og þremur mánuðum eftir þá dagsetningu. Þetta fyrirkomulag hefur lengi verið við lýði í alþjóðaumhverfi siglinga en tölvukerfi skipaskrár hafði ekki ráðið við það. Þá fara öll skip í 5 ára skoðunarhring þar sem endurnýjunarskoðun fer fram á 5 ára fresti í stað fjögurra. Það fyrirkomulag er til samræmis við helstu alþjóðasamninga á sviði siglinga og þau ríki sem Ísland ber sig saman við. Allar skoðanir eru skráðar inn í Skútuna og verður mögulegt að gefa út skírteini og skoðunarskýrslur alfarið rafrænt þegar fram líða stundir.

Þá er það nýmæli að haffærisskírteini eru gefin út til rúms árs í senn þrátt fyrir að aðfinnslur séu við skoðun skipsins og fellur skírteinið sjálfkrafa úr gildi sé ekki farið í endurskoðun. Þessi breyting einfaldar umsýslu og minnkar umsvif við útgáfu haffærisskírteina í tilvikum þar sem minniháttar atriði sem krefjast endurskoðunar eru við skoðun. Kerfið eykur sveigjanleika útgerða og fyrirsjáanleika þar sem skoðanir verða á sama tíma ár hvert. Þar sem öll skip fara í 5 ára skoðunarhring einfaldar kerfið umsýslu og utanumhald hjá útgerðum og eftirlitsaðilum. Þá munu samlegðaráhrif verða af því að allar skoðanir sem skip fer í árlega geti verið framkvæmdar á sama tíma að spara tíma og utanumhald hjá útgerðum.

Lögskráning sjómanna geymir upplýsingar í tengslum við útgáfu atvinnuskírteina sjómanna, t.d. um menntun, þjálfun, siglingatíma og öryggisfræðslu. Auk þess geymir það upplýsingar um útgefin atvinnuskírteini, lögskráningar á einstök skip, kröfur um lágmarksmönnun skipa og frávik frá þeim, undanþágur, áhafnatryggingar, farþegaleyfi farþegaskipa í áætlunarsiglingum og farþegaskipa og farþegabáta í útsýnis-, skoðunar- og veiðiferðum.

Með Skútunni eru lagfærðir ýmsir hnökrar sem voru á eldra lögskráningarkerfi, t.d. að nú er hægt að lögskrá í samsettar stöður þegar heimilt er að skipstjóri sé jafnframt vélstjóri og hann hefur réttindi í þær báðar. Jafnframt er búið að tengja sama mönnunarreglur farþegabáta og farþegaskipa við réttindaflokka sjómanna. Á sérstakri upplýsingasíðu má nálgast myndband um framkvæmd lögskráningar, almennar leiðbeiningar um lögskráningu sjómanna, lög og reglur um lögskráningu sjómanna, réttindaflokka, forsendur lögskráningar og mönnunarreglur skipa.

Óheimilt er skipstjóra að halda úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir á skipið, séu með gilt atvinnuskírteini eða undanþágu í þá stöðu sem þeir eru lögskráðir í, skipið sé með gilt haffærisskírteini, skipið sé mannað miðað við stærð þess, vélarafl, farsvið og útivist, staðfestingu á að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan hátt og með gilda áhafnartryggingu fyrir alla um borð. Þetta gildir þó ekki í neyðartilvikum.

Þegar veru skipverja um borð lýkur skal skipstjóri sjá til þess að viðkomandi sé afskráður. Samgöngustofa skal afskrá sjómann þegar skip hefur ekki lengur haffæri, áhafnartrygging skipsins er útrunnin eða atvinnuskírteini hans útrunnið. Skal Samgöngustofa tilkynna viðkomandi um að hann hafi verið afskráður.

Samgöngustofa hvetur öll þau sem eru að nota Skútuna að senda inn upplýsingar ef þau sjá hnökra og atriði sem betur mega fara á netfangið: [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum