Hoppa yfir valmynd
20. maí 2023 Innviðaráðuneytið

500. rampurinn vígður á Akureyri

Sigrún María Óskarsdóttir vígði 500. rampinn við athöfn á Akureyri. - mynd

Tugum nýrra hjólastólarampa hefur  verið komið upp á Akureyri á síðustu vikum og í dag var 500. rampurinn í verkefninu „Römpum upp Ísland“ vígður. Sigrún María Óskarsdóttir íbúi á Akureyri klippti á borða við þetta tækifæri og vígði rampinn þar með formlega. 

Bæjarfulltrúarnir Hulda Elma Eysteinsdóttir og Hlynur Jóhannsson sögðu nokkur orð við þetta tilefni og þökkuðu Haraldi Þorleifssyni hvatmanni verkefnisins og hans fólki fyrir framtakið. Markmiðið er að setja upp 1.500 rampa á landsvísu fyrir vorið 2026.

Í ávarpi sínu vitnaði Hulda Elma til mannréttindastefnu Akureyrarbæjar þar sem segir meðal annars að óheimilt sé að mismuna fólki vegna fötlunar og að fötluðu fólki skuli tryggðar aðstæður til að taka virkan þátt í samfélaginu. „Og þó það nú væri! Það eru mannréttindi að öllum séu skapaðar sömu aðstæður og gert jafn hátt undir höfði. Hreyfihamlaðir þurfa að komast allra sinna leiða óhindrað og með því að rampa upp Akureyri eru lögð þung lóð á þær vogarskálar,“ sagði Hulda Elma.

Hlynur Jóhannsson þakkaði aðstandendum verkefnisins fyrir að rampa upp Akureyri og sagði það vel við hæfi að 500. rampurinn væri við skemmtistað í bænum. „Rampur við skemmtistað endurspeglar ágætlega hversu mikilvægt það er fyrir fólk í hjólastól að komast allra sinna leiða - geta sinnt erindum hjá opinberum stofnunum, farið í fatabúðir, komist í matvöruverslun, já eða sest inn á kaffihús til að ræða lífið og tilveruna í hópi kunningja og vina. Það er því síður en svo léttvægt að rampa upp skemmtistaði bæjarins og vel til fundið hjá Haraldi og hans fólki að helluleggja fimm hundruðasta rampinn hér á þessu horni við Ráðhústorg á Akureyri,“ sagði Hlynur við vígslu 500. rampsins á Akureyri í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum