Hoppa yfir valmynd
26. maí 2023 Dómsmálaráðuneytið

Viljayfirlýsing undirrituð um hafnaraðstöðu fyrir Landhelgisgæsluna

Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing um uppbyggingu framtíðaraðstöðu fyrir skipaútgerð Landhelgisgæslu Íslands í Reykjaneshöfn. Viljayfirlýsinguna undirrita Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Auðunn F. Kristinsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar og Halldór K. Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar.

Aðilar að þessari viljayfirlýsingu hafa átt í viðræðum um uppbyggingu á framtíðaraðstöðu fyrir skipaútgerð Landhelgisgæslu Íslands í Reykjanesbæ. Þau áform hagga ekki útgerð varðskips frá Norðurlandi.

Áformin lúta að gerð langtímaleigusamnings um viðlegukant, auk nauðsynlegrar aðstöðu fyrir þau tæki og búnað sem tilheyra rekstrinum, auk veituþjónustu. Markmiðið er að heimahöfn viðkomandi skipa yrði Reykjaneshöfn og að starfsemi tengd rekstri þeirra færist að verulegu leyti þangað.

Aðilar að viljayfirlýsingunni lýsa sig reiðubúna til að vinna áfram að því að þessi uppbygging framtíðaraðstöðu verði að veruleika í samræmi við framangreindar áherslur.

Landhelgisgæslan hefur lengi horft til þess að komast í varanlega aðstöðu með skipakost sinn þar sem hægt er að tryggja öryggi og starfsaðstöðu bæði fyrir áhafnir og þann búnað sem þarf til reksturs varðskips. Hugmyndir að uppbyggingu fyrir Landhelgigæsluna í Reykjaneshöfn falla vel að þörfum og væntingum stofnunarinnar um hafnaraðstöðu. Ráðherrann hefur lýst þessum hugmyndum fyrir fjárlaganefnd í umræðum um fjármálaáætlun.

Styttir viðbragð með suðurströndinni

Mikill áhugi er hjá bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ að gera Reykjaneshöfn að heimahöfn Landhelgisgæsluskipa. Aðstaðan er hentug að mörgu leyti; einungis 6-7 mínútna aksturfjarlægð frá aðstöðu Landhelgisgæslu Íslands á Keflavíkurflugvelli og gott samgöngunet við höfuðborgarsvæðið. Staðsetning skipa Landhelgisgæslunnar í Reykjanesbæ fremur en Reykjavík hefur ekki áhrif á viðbragðstíma til norðurs, svo sem til Vestfjarða, en myndi stytta viðbragðstíma um a.m.k. tvær klukkustundir suður fyrir landið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum