Hoppa yfir valmynd
2. júní 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ísland tekur þátt í InvestEU áætlun Evrópusambandsins

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur undirritað samninga við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um þátttöku Íslands í InvestEU áætluninni. Um er að ræða 26 milljarða evra ábyrgðarsjóð sem ætlað er að virkja fjárfestingar upp á um 370 milljarða evra, þar af um 30% til loftslagsverkefna. InvestEU áætlunin styður við fjármögnun og fjárfestingar í Evrópu á sviði nýsköpunar, sjálfbærrar uppbyggingar innviða og stafrænnar umbreytingar. Sérstök áhersla er lögð á stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki, samfélagslega þátttöku og samkeppnishæfni evrópska hagkerfisins.

Með aðild að áætluninni fæst aðgangur að betri lánskjörum og hærri lánsfjárhæðum á erlendum lánamörkuðum svo fremi sem fjárveitingarverkefnin falla undir áherslur InvestEU. Þannig fá Ísland og Noregur, undir hatti InvestEU, sama aðgang að lánsfé og sömu kjör og ríki Evrópusambandsins,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. 

Aukin tækifæri til að fjármagna samfélagslega mikilvæg verkefni

Ísland og Noregur eru fyrstu ríkin utan ESB sem taka þátt í áætluninni. Ríkin tvö hafa fylgst að í undirbúningi samninga við framkvæmdastjórn ESB.

Með samningnum opnast aukin tækifæri til að fjármagna eða sækja ábyrgð vegna stórra, samfélagslega mikilvægra verkefna á Íslandi, hvort sem þau eru á vegum opinberra aðila, sveitarfélaga eða einkaaðila. Sem dæmi má nefna fjármögnun verkefna á sviði orkuframleiðslu, orkuskipta og innleiðingar hringrásarhagkerfis og stuðning við nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þar að auki styður áætlunin við önnur verkefni innan Samstarfsáætlunar ESB á sviði rannsókna og nýsköpunar og eykur aðild því möguleika á þátttöku í stórum alþjóðlegum verkefnum á sviði nýsköpunar, sjálfbærrar þróunar og stafrænna umbreytinga. 

Fjölbreyttir og eftirsóknarverðir fjármögnunarmöguleikar

Fyrirséð er að þátttaka Íslands í InvestEU geti aukið fjárfestingu og vöxt á tímum þar sem fjármögnun er almennt krefjandi. Áætlunin er hluti af samstarfsáætlunum ESB um rannsóknir og nýsköpun árin 2021-2027. Þá eru þrettán eldri stuðnings- og hvatakerfi ESB sett undir hatt InvestEU til gagnsæis og einföldunar en íslenskir aðilar hafa fengið lánafyrirgreiðslu úr nokkrum þeirra, þ. á m. COSME samkomulaginu sem Byggðastofnun hefur um árabil tekið þátt í. 

,,Samkomulag Byggðastofnunar um aðild að COSME samkomulagi hefur gjörbylt lánastarfsemi hennar og gert stofnuninni kleift að sinna hlutverki sínu varðandi eflingu byggðar og atvinnulífs með mun kraftmeiri hætti en áður. Þannig voru settar á laggir nýir lánaflokkar sem styrkt hafa stoðir atvinnulífs í viðkvæmustu byggðakjörnum landsins,” segir Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar. ,,Um er að ræða lán til kynslóðaskipta í landbúnaði, lán til stuðnings atvinnureksturs kvenna, lán til umhverfisvænna verkefna, nýsköpunarlán og lán til fiskvinnslu og útgerða í viðkvæmum sjávarbyggðum. Ætla má að lánveitingar undir samkomulaginu hafi skapað um 100 störf í landsbyggðum fyrir utan störf sem þær hafa viðhaldi en heildarlánveiting er um 3,3 ma.kr.”

Byggðastofnun fagnar því að samkomulag hafi náðst um aðild Íslands að InvestEU sem tekur nú við af COSME samkomulaginu og tryggir að fjölbreyttir og eftirsóknarverðir fjármögnunarmöguleikar verði áfram í boði um land allt. 

Nánar um InvestEU

  • Helstu framkvæmdaaðilar InvestEU eru Evrópski fjárfestingabankinn (e. European Investment Bank – EIB) og Evrópski fjárfestingasjóðurinn (e. European Investment Fund – EIF). Norræni fjárfestingabamkinn (e. Nordic Investment Bank – NIB) er jafnframt framkvæmdaraðili hvað beina lánveitingu varðar. Þátttaka Íslands skv. Samningnum mun fela í sér samstarf við þessa framkvæmdaaðila.

  • Einn hluti áætlunarinnar felst í InvestEU gátt þar sem hægt er að skrá verkefni sem vantar fjármögnun og tengjast fjárfestum og fjármögnunaraðilum á viðkomandi sviðum. 

  • Markhópar InvestEU eru fjölmargir, t.d. fjármálafyrirtæki, opinberar stofnanir og opinber fyrirtæki, sveitarfélög, lífeyrissjóðir og aðrir sjóðir en einnig lítil og meðalstór fyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki. 

 

Fréttatilkynning ESB um undirritun samnings við Ísland og Noreg.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum