Hoppa yfir valmynd
2. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Vinna við aðgerðaáætlun ferðaþjónustunnar hafin

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra á ráðstefnunni Þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar í Hörpu í mars.  - myndSigurjón Ragnar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra hefur skipað sjö starfshópa sem falið er að vinna tillögur að aðgerðaáætlun fyrir ferðamálastefnu til 2030. Gert er ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar um á vorþingi 2024.

„Það skiptir miklu máli að skapa ferðaþjónustunni hagfelld skilyrði til þess að vaxa og dafna með sjálfbærum hætti með það fyrir augum að skapa aukin verðmæti og lífsgæði fyrir íslenskt samfélag. Ég hef miklar væntingar til vinnu starfshópanna enda höfum við fengið til liðs við okkur fjölbreytt og öflugt fólk með víðtæka þekkingu og reynslu hvert á sínu sviði,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra.

Hóparnir eru:

 1. Sjálfbærni og orkuskipti.
  Formaður: Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans.
 2. Samkeppnishæfni og verðmætasköpun.
  Formaður: Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.
 3. Rannsóknir og nýsköpun.
  Formaður: Már Másson, framkvæmdastjóri Fossfall ráðgjafar.
 4. Uppbygging áfangastaða.
  Formaður: Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
 5. Hæfni og gæði.
  Formaður: Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands.
 6. Heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónusta.
  Formaður: Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs-, og vöruþróunarsviðs Bláa lónsins.
 7. Menningartengd ferðaþjónusta.
  Formaður: Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.

Hver starfshópur er skipaður sjö til níu sérfróðum aðilum, auk formanns. Miðað er við að hóparnir hafi víðtækt samráð við ferðaþjónustuna og aðra haghafa og skili fyrstu drögum að aðgerðum fyrir 1. október 2023. Þær tillögur fara í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda. Hóparnir skila lokatillögum til stýrihóps fyrir 15. desember 2023 sem samræmir aðgerðir í heildstæða aðgerðaáætlun og skilar til ráðherra.

„Það er ánægjulegt að sjá hversu mikill kraftur hefur verið settur í undirbúning fyrir vinnu við aðgerðaáætlun nýrrar ferðamálastefnu. Ég hef fengið það hlutverk að leiða vinnu hóps um uppbyggingu áfangastaða þar sem áherslan verður meðal annars á áfangastaðaáætlanir, framkvæmdasjóð ferðamannastaða, samgöngumál, öryggi og aðgengi. Þetta verkefni er mjög brýnt og af mörgu að taka. Okkar áhersla verður á forgangsröðun aðgerða í góðu samtali við ferðaþjónustuna um allt land. Ég hlakka til að skila af okkur markvissum tillögum í haust og ekki síður þess að vinna með ferðaþjónustunni að okkar framtíðarsýn,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og formaður starfshóps um uppbyggingu áfangastaða.

Verkefnið í heild sinni er leitt af stýrihópi á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis sem formenn starfshópanna sjö eiga sæti í, ásamt ferðamálastjóra, framkvæmdastjóra SAF, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, fulltrúum menningar- og viðskiptaráðuneytisins og formanni ferðamálaráðs. Utanaðkomandi ráðgjafar frá RATA og Deloitte eru til stuðnings við verkefnið í heild. Stýrihópur samræmir og vinnur nánar úr þeim tillögum sem koma frá starfshópunum.

„Til þess að við náum markmiðum um sjálfbæra þróun ferðaþjónustu á næstu árum er nauðsynlegt að sett verði skýr og tímasett aðgerðaáætlun þar sem forgangsaðgerðir eru settar fram og ábyrgð á framkvæmd þeirra er skýr. Það er því afar ánægjulegt að sjá vinnuna við aðgerðaáætlunina hefjast í víðu samstarfi. Við væntum mikils af þessari vinnu og erum sannfærð um að hún muni reynast mikilvæg til að styðja við jákvæða þróun ferðaþjónustunnar og áhrif hennar á samfélagið til framtíðar,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF og fulltrúi í stýrihópi um ferðamálastefnu til 2030.

Haldnir verða opnir umræðu- og kynningarfundir um vinnuna í öllum landshlutum í haust. Þá er fyrirhugað að opna vefsíðu þar sem finna má upplýsingar og gögn sem tengjast Ferðaþjónustu til 2030. Þar munu áhugasamir jafnframt geta komið sínum ábendingum á framfæri.“

 

Ferðaþjónustustefna til 2030

Í uppfærðum stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 eru 12 áherslur sem deilast á lykilstoðirnar fjórar; efnahag, samfélag, umhverfi og gesti. Aðgerðaáætlunin mun fylgja eftir þeirri framtíðarsýn, markmiðum og áherslum sem koma fram í ferðaþjónustustefnu til 2030.

Ferðaþjónustan er ein af stærstu útflutningsgreinum landsins og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar. Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf í sátt við land og þjóð.

Áfram verður lögð áhersla á öflun áreiðanlegra gagna og innviðauppbyggingu ásamt aðgerðum sem miða að því að dreifa ferðamönnum víðar um landið og yfir allt árið. Einnig að auka öryggi, stuðla að öruggri ferðahegðun og jákvæðri upplifun gesta samhliða því að leita leiða til að bæta rekstrarskilyrði greinarinnar hér á landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum