Hoppa yfir valmynd
8. júní 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Embætti ríkissáttasemjara laust til umsóknar

Embætti ríkissáttasemjara er laust til umsóknar. Skipað er í embættið á grundvelli laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og er skrifstofa embættisins í Reykjavík.

Samkvæmt framangreindum lögum er skipað í embætti ríkissáttasemjara til fimm ára í senn og skal ríkissáttasemjari annast sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar. Vakin er athygli á þeim skilyrðum er fram koma í 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur í tengslum við skipun í umrætt embætti en þar kemur meðal annars fram að gæta skuli þess að afstaða ríkissáttasemjara sé slík að telja megi hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda.

Hæfniskröfur:

• Menntun og reynsla sem nýtist í embætti.
• Forystuhæfileikar.
• Framúrskarandi samskiptahæfni.
• Þekking á íslenskum vinnumarkaði.
• Framúrskarandi færni í íslensku, mæltu og rituðu máli.
• Góð kunnátta í ensku, mæltu og rituðu máli.
• Áhugi, skilningur og metnaður fyrir embættinu.
• Skipulagshæfileikar, frumkvæði og sjálfstæði.

Í umsókn skal eftirfarandi koma fram; upplýsingar um núverandi starfsheiti umsækjenda, ítarlegar upplýsingar um menntun, fyrri störf, afrit af prófskírteinum og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu. Öllum umsóknum verður svarað þegar skipað hefur verið í embættið. Um laun fer skv. 7. mgr. 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur.

Ráðuneytið hvetur fólk óháð kyni til að sækja um.

Umsóknir um embætti ríkissáttasemjara verða metnar af ráðgefandi hæfnisnefnd sem félags- og vinnumarkaðsráðherra skipar.

Umsóknarfrestur er til og með 19. júní 2023, sótt er um starfið á starfatorg.is

Nánari upplýsingar veitir Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, í gegnum tölvupóst, [email protected]

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum