Hoppa yfir valmynd
13. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Norðurlanda funduðu á Ísafirði

Utanríkisráðherrarnir á Bolafjalli - myndutanríkisráðuneytið

Stuðningur við Úkraínu og alþjóðasamfélagið, samskiptin við Rússland og staða mannúðarmála í Afganistan voru ofarlega á baugi á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda sem fram fór á Ísafirði í dag. Ísland er í formennsku norrænnar samvinnu í ár, þar á meðal í utanríkispólitísku samstarfi Norðurlanda, og því fer árlegur sumarfundur í samstarfinu fram hér á landi.

Ráðherrarnir komu til Ísafjarðar í gærkvöld en formlegur fundur þeirra fór fram í Edinborgarhúsinu í morgun. Samskipti norrænna ríkja við Rússland á tímum innrásarstríðs þess í Úkraínu var ofarlega á baugi á fundi ráðherranna. Við það tækifæri ræddi Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra þá ákvörðun sína að leggja niður starfsemina í sendiráði Íslands í Moskvu sem tilkynnt var um í liðinni viku. „Þótt Ísland sé eina ríki Norðurlanda sem ákveðið hefur að leggja niður starfsemina í sendiráði sínu í Moskvu hafa öll Norðurlöndin gripið til aðgerða gagnvart rússneskum diplómötum í höfuðborgum sínum,“ segir utanríkisráðherra. „Hér eftir sem hingað til er gagnlegt að ræða hvernig hin norrænu ríkin nálgast samskiptin við Rússland en ekki síður var gott að finna þann stuðning sem ríkir um samstarf Norðurlanda við þessar aðstæður, til dæmis á sviði borgaraþjónustu en samkvæmt Helsingforssamningnum veita Norðurlöndin gagnkvæma aðstoð í borgaraþjónustumálum.“ 

Umræður um áframhaldandi stuðning Norðurlanda við Úkraínu voru jafnframt á dagskránni en líka hvernig sporna megi við áróðri og upplýsingaóreiðu Rússlands utan Vesturlanda. Samskiptin við Kína voru einnig til umræðu.

Ráðherrarnir ræddu ennfremur ástandið í Afganistan en frá því að talibanar náðu völdum þar á ný fyrir tæpum tveimur árum hafa þeir hert tökin og þrengt að réttindum borgara í landinu, sérstaklega kvenna og stúlkna. „Þrátt fyrir að ástand mannúðarmála sé óvíða verra en í Afganistan hefur gengið mjög erfiðlega að afla framlaga til lífsbjargandi aðstoðar þar. Til að bæta gráu ofan á svart er hjálpar- og mannúðarsamtökum gert nánast ómögulegt að starfa í landinu, nú síðast með banni talibana við þátttöku kvenna í starfi slíkra samtaka. Við ráðherrarnir vorum á einu máli að Norðurlöndin yrðu að nota rödd sína og áhrif til að styðja við konur og stúlkur í Afganistan. Hvað sem okkur kann að finnast um ömurleg stjórnvöld í landinu má fólkið þar ekki gleymast,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Við komuna til Ísafjarðar í gærkvöld héldu ráðherrarnir í skoðunarferð á Bolafjall og virtu þaðan fyrir sér stórfenglegt útsýnið yfir Ísafjarðardjúp.

Auk Þórdísar Kolbrúnar sóttu fundinn þau Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar og Eivind Vad Petersson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneyti Noregs.


  • Utanríkisráðherrar Norðurlanda funduðu á Ísafirði - mynd úr myndasafni númer 1
  • Utanríkisráðherrar Norðurlanda funduðu á Ísafirði - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum