Hoppa yfir valmynd
16. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ísland taki þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra á ársfundi Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.. - myndLeifur Wilberg

Liður í nýsamþykktri aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúr er að tryggja þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr. Unnið er að undirbúningi þess og stefnt að þátttöku frá og með árinu 2025.

„Þetta er mikilvægt skref og langþráður draumur margra. Íslenskur arkitektúr er á heimsmælikvarða og við höfum sögur að segja – þátttaka á þessu stærsta sviði alþjóðlegrar byggingalistar mun bæði vekja athygli út á við og en ekki síður styrkja hönnunargeirann inn á við. Þarna er einstakt tækifæri til þess að varpa ljósi á stöðu og gæði íslensks arkitektúrs, tengja okkur enn betur inn í alþjóðlega umræðu og rannsóknir og stuðla að auknu samstarfi þvert á mannvirkjageirann,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

„Við fögnum þessum áfanga. Tvíæringurinn gegnir lykilhlutverki við að móta og dýpka umræðu um arkitektúr um allan heim og þar koma saman lykilaðilar sem vinna að lausnum á brýnustu áskorunum samtímans – hvernig við byggjum og þróum samfélög á sjálfbæran hátt. Arkitektúr hefur snertiflöt við allar hliðar lífs á jörðinni. Fulltrúar ríkja og sveitarfélaga, arkitektar og hönnuðir, verkfræðingar, framleiðendur, fjárfestar og þróunaraðilar mæta á Feneyjatvíæringinn til að fræðast, tengjast og fá innblástur til góðra verka,“ segir Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri  Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr er haldinn annað hvert ár, á móti tvíæringi í myndlist sem Ísland hefur tekið þátt í frá árinu 1960. Tvíæringurinn byggist á sýningum frá þjóðum heims í sérstökum þjóðarskálum annars vegar og sjálfstæðri sýningu undir stjórn sýningarstjóra hins vegar. Nú stendur yfir tvíæringur sem formlega var opnaður 20. maí sl. Skipuleggjendur ákveða þema fyrir hvern tvíæring í takti við tíðaranda hverju sinni en yfirskrift sýningarinnar í ár er „Rannsóknastofa fyrir framtíðina“.

MHA og Arkitektafélagið heimsóttu Feneyjatvíæringinn í maí á þessu ári.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Arkitektafélagið heimsóttu Feneyjatvíæringinn í maí á þessu ári.

Þátttaka í tvíæringnum í arkitektúr fellur vel að áherslum ríkisstjórnar í málefnum skapandi greina og kynningu á þeim á alþjóðavettvangi og að áherslum stjórnvalda á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna loftslagsáhrifa arkitektúrs og byggingariðnaðar.

Fyrirkomulag um framkvæmd verkefnisins verður kynnt á næstunni en ráðgert er að það verði unnið í góðri samvinnu stjórnvalda, Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs fyrir hönd Arkitektafélags Íslands, og atvinnulífsins.

Sjá einnig:

Útlínur framtíðar – stefna hönnunar og arkitektúrs til 2030

Aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum