Hoppa yfir valmynd
20. júní 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Alþjóðlegt átak um aukna þátttöku fatlaðra í íþróttum

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ávarpar stofnfund um Global Leadership Coalition for Inclusion - mynd

Ísland er meðal stofnríkja Global Leadership Coalition for Inclusion sem ætlað er að auka þátttöku fatlaðra í íþróttastarfi. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tók þátt í stofnfundi átaksins á heimsleikum fatlaðra í Berlín sem standa yfir um þessar mundir.

Global Leadership Coalition for Inclusion (GLC) er fjölþjóða og þverfaglegt átak sem hvetur þjóðir og alþjóðasamfélagið til marktækrar fjárfestingar í aðlögun allra þjóðfélagshópa að samfélaginu í gegnum íþróttir. Átakið nær m.a. til skóla- og frístundastarfs, auk almenns íþróttastarfs, með það að markmiði að brjóta niður aðskilnað og stuðla að þátttöku allra í félagslífinu.

Meðal þeirra sem koma að stofnun GLC eru Bandaríkin, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Kína, Mongólía, Panama, Ghana, Kenýa, lýðveldið Seychelles-eyjar, Malta, Svartfjallaland, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, Lions International, Harvard-háskóli, Stavros Niarchos Foundation og framkvæmdastjórn ESB. Jafnframt voru um 150 lönd með áheyrnarfulltrúa í sal til að kynna sér framtakið.

„Ísland er að innleiða áætlun um aukna þátttöku í íþróttum hjá vaxandi fjölda íþróttafélaga og félagsmiðstöðva til að tryggja að allir einstaklingar geti, óháð andlegrar og líkamlegrar getu, notið íþrótta með tilheyrandi ávinningi. Stefna stjórnvalda er jafnframt að innleiða þessa nálgun í skólastarf til að valdefla börn og ungmenni og fjölga kennurum og skólastofnunum sem styðjast við þessa aðferðarfræði sem hluta af náminu. Þetta gegnir lykilhlutverki við aðlögun komandi kynslóða,“ sagði Ásmundur Einar í ávarpi sínu á stofnfundinum. „Við hlökkum til að deila framvindu okkar vinnu með öllum áhugasömum og vitum sömuleiðis að við höfum mikið að læra af öðrum stofnaðilum.“

Mennta- og barnamálaráðherra ávarpar stofnfund um Global Leadership Coalition for Inclusion

Mennta- og barnamálaráðuneytið, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið settu í desember af stað samstarfsverkefnið „Farsælt samfélag fyrir öll – brúum bilið“ sem miðar að því að efla íþróttaástundun fatlaðs fólks, ekki síst fatlaðra barna og ungmenna. Stuðningurinn er liður í að ná markmiðum 30. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF). Íþróttasamband fatlaðra er ábyrgðaraðili verkefnisins en það er unnið í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Auk ráðuneytanna þriggja eru bakhjarlar verkefnisins ÖBÍ og Þroskahjálp.

Íslensk stjórnvöld skrifuðu undir 30. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016. Í núverandi stjórnarsáttmála er kveðið á um lögfestingu samningsins þar sem m.a. er að finna skýr ákvæði um viðeigandi aðlögun allra að íslensku samfélagi. Íþróttastarf gegnir veigamiklu hlutverki í farsæld allra þjóðfélagshópa og þar eru engin undanskilin. Það bætir heilsu, félagsstöðu og menntun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum