Hoppa yfir valmynd
22. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaáætlun

Mikil gróska er í málefnum íslensks táknmáls um þessar mundir. Í fjármálaáætlun 2024-28 er fjallað um áherslur í málefnum íslensks táknmáls til næstu fjögurra ára:

Drög að tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls (ÍTM) voru unnin af starfshópi skipuðum fulltrúum Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, í víðtæku samstarfi við sérfræðinga í málaflokknum. Íslenskt táknmál (ÍTM) er hefðbundið minnihlutamál á Íslandi skv. lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011. Tillaga til þingsályktunar um málstefnu og aðgerðaáætlun um íslenskt táknmál er í vinnslu þar sem Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra verður falin meginábyrgð á framkvæmd aðgerða í aðgerðaáætlun eftir því sem við á. Aukin þjónusta við táknmálstalandi fólk gerir því kleift að taka fyllri þátt í samfélaginu en ella og stuðlar aukin þjónusta þannig að því að það standi jafnfætis einstaklingum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

Tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls ásamt aðgerðaáætlun er á þingmálaskrá haustþings. Hún var birt í samráðsgátt Stjórnvalda 12. maí 2022 og er hægt að nálgast hana á vef Samráðsgáttar.

Gjaldskrá

Um þessar mundir er unnið að endurskoðun gjaldskrár Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Núgildandi gjaldskrá er síðan 2013 og má finna á vef Stjórnartíðinda.

Endurgjaldslaus túlkaþjónusta

Um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra gilda lög nr. 129/1990 þar sem kveðið er á um hlutverk stofnunarinnar. Á grundvelli þeirra laga hefur verið sett áðurnefnd gjaldskrá Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.
Táknmálstúlkun gegn gjaldi er innheimt skv. gjaldskránni sem ráðherra setur stofnuninni. Slík túlkun er t.a.m. í menntakerfi, heilbrigðiskerfi og dómskerfi og er greidd af hlutaðeigandi ríkisaðilum eða sveitarfélögum í samræmi við lög og reglugerðir. Má þar nefna lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1994, lög um grunnskóla nr. 91/2008, lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 o.s.frv.

Í gjaldskránni er einnig kveðið á um það að stofnuninni sé heimilt að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs og greiða ferðakostnað táknmálstúlks utan Reykjavíkursvæðisins vegna þess, á grundvelli sérstakrar fjárveitingar í fjárlögum ár hvert.
Með endurgjaldslausri túlkaþjónustu er átt við þá túlkaþjónustu sem er ekki bundin í lög og er þar af leiðandi ekki hluti af lögbundinni þjónustu miðstöðvarinnar. Samkvæmt heimildarákvæði um endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs skal gætt að jafnræði milli notenda þjónustunnar, með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem til ráðstöfunar er á hverjum tíma. Í því felst þó ekki að stofnuninni sé skylt að semja við þriðja aðila um téða táknmálstúlkaþjónustu en það er vandkvæðum bundið.

Fjárveiting til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu er veitt til stofnunarinnar í fjárlögum. Fjárhæð til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu er því ekki sjóður heldur hluti af rekstrarframlagi stofnunarinnar. Þetta framlag hefur í daglegu tali verið kallað “félagslegi sjóðurinn” og hefur gætt viss misskilnings um eðli fjármagnsins. Þar sem ekki er um eiginlegan sjóð að ræða heldur rekstrarframlag stofnunarinnar hefur verið vissum vandkvæðum bundið að semja um táknmálstúlkun frá öðrum aðilum. Endurgjaldslausa táknmálstúlkunin er í raun launakostnaður túlka hjá Samskiptamiðstöð en ekki aðgreint fé úr sjóði sem hægt er að greiða út til annarrar túlkaþjónustu.

Eðli endurgjaldslausrar táknmálstúlkunar miðstöðvarinnar felur í sér að upp getur komið sú staða að allir táknmálstúlkar séu uppteknir sem getur leitt til þess að stofnunin þarf að synja beiðnum um táknmálstúlkun undir þeim ákveðnu kringumstæðum ef ekki er hægt að veita þjónustuna á öðrum tíma.

Til þess að bregðast við þeim tilfellum þar sem miðstöðinni reynist ekki unnt að veita umrædda táknmálstúlkun í daglegu lífi eða notandi kjósi að leita annað eftir túlkaþjónustu er unnið að því að setja á laggirnar sjóð sem notendur sjóðsins geti sótt fjármagn í fyrir veitta táknmálstúlkun hjá sjálfstætt starfandi táknmálstúlkum. Fyrirkomulag væntanlegs sjóðs liggur ekki fyrir en ráðuneytið mun upplýsa um og kynna sjóðsfyrirkomulag þegar það liggur fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum