Hoppa yfir valmynd
26. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Arna Kristín Einarsdóttir skipuð skrifstofustjóri menningar og fjölmiðla

Menningar- og viðskiptaráðherra hefur skipað Örnu Kristínu Einarsdóttur í embætti skrifstofustjóra menningar og fjölmiðla í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

Staðan var auglýst laus til umsóknar 17. mars sl. Alls bárust 18 umsóknir um starfið, tveir drógu umsóknir sínar til baka. Arna Kristín var valin í embættið að fengnum tillögum frá ráðgefandi hæfnisnefnd og tekur við embættinu í haust.

Arna Kristín lauk meistaranámi í flautuleik (Professional Performance) frá Indiana University í Bandaríkjunum árið 1992, diplóma á meistarastigi í flautuleik frá Royal College of Music í Manchester á Englandi árið 1996, MA gráðu í menningar- og menntastjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2007 og diplóma í samningatækni og sáttamiðlun frá sama skóla árið 2017.

Arna Kristín starfar sem dagskrár- og skipulagsstjóri við Sinfóníuhljómsveit og tónlistarhús Gautaborgar, þjóðarhljómsveit Svíþjóðar. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri þjóðarhljómsveitar Kanada í Ottawa frá 2019-2022. Þar áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) á árunum 2013-2019 og sem tónleikastjóri SÍ á árunum 2007-2013.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum