Hoppa yfir valmynd
26. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Flýta grænni umbreytingu og auka sjálfbæra verðmætasköpun: samvinna Norðurlanda

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Jan Christian Vestre, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs. - mynd

Norrænn samstarfsvettvangur um hönnun og arkitektúr verður formlega settur á laggirnar á alþjóðlegu arkitektúrráðstefnunni, UIA, í Kaupmannahöfn í byrjun júlí. Verkefnið er tilkomið vegna fundar Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra með Jan Christian Vestre, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs í apríl 2022 þar sem þau ræddu tækifæri í aukinni samvinnu Norðurlandanna á sviðum skapandi greina og nýsköpunar.

„Hönnun og arkitektúr eru mikilvægir drifkraftar fyrir sjálfbæra þróun, græn umskipti og verðmætasköpun, bæði með tilliti til aukinnar samkeppnishæfni og möguleika norrænna fyrirtækja, og fyrir borgir og samfélög. Þessi nýi vettvangur sameinar krafta fagfólks á Norðurlöndunum sem vinnur að því að efla hönnunargreinar, og mun miðla þekkingu, aðferðum og árangri með markvissari hætti. Ég bind vonir við að samvinnan muni leysa úr læðingi mikla skapandi krafta og bera hróður norrænnar hönnunar enn víðar en áður,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er fulltrúi Íslands í samstarfinu og hefur tekið virkan þátt í þróun þess sem DOGA (no. Design og Arkitektur Norge) hefur leitt. Systurstofnanir miðstöðvarinnar taka allar þátt í samstarfinu auk fjölda annarra:

  • Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Ísland
  • Dansk Design Center (DDC), Danmörk
  • Dansk Arkitektur Center (DAC), Danmörk
  • ArkDes, Svíþjóð
  • Archinfo, Finnland
  • Design Forum Finland, Finnland
  • DOGA, Noregur

Eftirfarandi aðilar eiga líka aðild að verkefninu: Form/Design Center, Sveriges Arkitekter, SVID, Svensk Form, SAFA, Designinfo, Arkitektforbundet, NAL, Arkitektforeningen og Dansk Designråd.

Hönnunarmiðstöðvar munu efla samstarf sitt og vinna náið saman að því að auka þekkingu og skilning á margþættu hlutverki og gildi hönnunargreina, bæði á Norðurlöndunum og á alþjóðavettvangi. Næstu skref þeirra verða að kortleggja móta sameiginlega sýn til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun.

Stærsta arkitektaráðstefna í heimi

Viðeigandi er að formlega verður tilkynnt um samstarfið á UIA heimsráðstefnu arkitekta, verður haldin í Kaupmannahöfn 2.-6. júlí 2023. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðstefnan er haldin á Norðurlöndunum sem standa saman að því að framkvæmdinni. Ráðgert er að um 6.000 gestir sæki ráðstefnuna en Kaupmannahöfn er heimsborg arkitektúrs (e. World Capital of Architecture) árið 2023.

Sýningaskáli Norðurlandanna er unnin í samstarfi norrænu arkitektafélaganna og Norrænu ráðherranefndarinnar, en þar verður verkefnið „Hönnun í norrænni náttúru“ (e. Design in Nordic Nature, natnorth.is) meðal annars kynnt. Verkefnið var hluti af formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á árunum 2019-2021 og leitt af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Verkefnið miðlar fjölbreyttum norrænum hönnunarlausnum sem stuðla að sjálfbærri ferðamennsku en það var unnið af hönnuðum og sérfræðingum frá Danmörku, Finnlandi, Grænlandi, Íslandi og Noregi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum