Hoppa yfir valmynd
27. júní 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Samningur Sjúkratrygginga Íslands um þjónustu sérgreinalækna í höfn

Frá undirritun samnings um þjónustu sérgreinalækna í Ráðherrabústaðnum 27. júní 2023 - myndStjórnarráðið

Sjúkratryggingar Íslands og Læknafélag Reykjavíkur hafa náð samkomulagi um þjónustu sérgreinalækna. Samningurinn er langtímasamningur til 5 ára og tekur samningurinn að fullu gildi 1. september 2023. Samningurinn stuðlar að umtalsverðri lækkun á greiðsluþátttöku almennings í þjónustu sérfræðilækna og myndar styrka umgjörð um starfsemi sérfræðilækna sem stuðlar bæði að framþróun þjónustunnar og auknu aðgengi að henni.

Í samningnum er aukið fjármagn til þjónustu sérgreinalækna um 4,2 milljarða króna á ársgrundvelli en meginhluti þeirra hækkunar er tilkominn vegna verðlags- og launaþróunar. Aukin þátttaka Sjúkratrygginga í kostnaði þjónustunnar leiðir til lægri kostnaðar fyrir sjúklinga þar sem aukagjöld sem lögð hafa verið á þjónustuna undanfarin ár, falla niður. Ætla má að með nýjum samningi lækki greiðsluþátttaka almennings um allt að 3 milljarða króna á ári. Samningurinn felur í sér mikinn ávinning fyrir almenning og tryggir jafnt aðgengi að þjónustu sérfræðilækna óháð efnahag. Með samningnum er bundinn endi á þá óvissu og óhagræði sem hlotist hefur af samningsleysi undanfarinna ára en sérgreinalæknar hafa verið samningslausir síðan í janúar 2019.

Á samningstímanum verður unnið að ýmsum samstarfsverkefnum sem er ætlað að efla umgjörð starfsemi sérgreinalækna með það að markmiði að auka þjónustu við sjúklinga og tryggja að starfsemi sérgreinalækna endurspegli öra þróun læknavísinda. Samningurinn felur í sér ýmis nýmæli þessu til stuðnings og ber helst að nefna sérstaka hvata fyrir lækna til að vinna innan svonefndra starfsheilda sem sinna gæðamálum, stuðla að bættu aðgengi að þjónustu og styðja við þverfaglega teymisvinnu. Jafnframt verður komið á fót samráðsnefnd aðila frá Sjúkratryggingum Íslands og Læknafélagi Reykjavíkur sem mun vinna í sameiningu að heildstæðri þjónustu- og kostnaðargreiningu og reglulegri endurskoðun gjaldskrár. Samningnum er ætlað að styðja við framþróun í þjónustu sérfræðilækna með sérstakri áherslu á nýsköpun, stafræna þróun og fjarheilbrigðisþjónustu.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra: Þessi samningur markar tímamót. Að tryggja gott og jafnt aðgengi að þessari mikilvægu læknisþjónustu óháð efnahag er mikið gleðiefni og  í samræmi við stefnu stjórnvalda. Þetta er samningur sem gerður er í góðri sátt. Horft er til framtíðar og samráð eflt milli allra aðila þannig að hægt sé að þróa heilbrigðisþjónustuna áfram í takt við þörf samfélagsins.“

Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygging Íslands: „Samningur Sjúkratrygginga við sérfræðilækna eru mikil tímamót en eins og allir þekkja að þá hafa sérfræðilæknar verið samningslausir síðan 2019. Hlutverk Sjúkratrygginga er að stuðla að bættum lífsgæðum með aðgengi að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu. Með samningnum lækkar kostnaður þeirra sem þurfa að leita sér sérfræðiþjónustu sem er afar jákvætt. Þá eru margvísleg nýmæli í samningnum sem munu skila sér í skilvirkari þjónustu og bættu aðgengi fólks að henni. Sjúkratryggingar vilja þakka fulltrúum lækna fyrir árangursríkt samstarf við gerð nýs samnings. Þá vil ég þakka starfsfólki Sjúkratrygginga fyrir mikið og gott framlag.“

Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur: „Þessi samningur er fyrir sjúklingana okkar, fyrir fólkið í landinu. Þetta er samningur um að tryggja aðgengi að mikilvægri, hagkvæmri og umfangsmikilli læknisþjónustu. Þessi samningur felur í sér tækifæri til að þróa heilbrigðisþjónustu áfram í samvinnu við Sjúkratrygginga með þarfir sjúklinga að leiðarljósi.  Ég vil nota tækifærið og þakka Sjúkratryggingum og kollegum mínum í samninganefnd fyrir gott samstarf.

  • Frá undirritun samnings um þjónustu sérgreinalækna í Ráðherrabústaðnum 27. júní 2023 - mynd
  • Frá undirritun samnings um þjónustu sérgreinalækna í Ráðherrabústaðnum 27. júní 2023 - mynd
  • Frá undirritun samnings um þjónustu sérgreinalækna í Ráðherrabústaðnum 27. júní 2023 - mynd
  • Frá undirritun samnings um þjónustu sérgreinalækna í Ráðherrabústaðnum 27. júní 2023 - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum