Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Myndlistarstefnu til 2030 fagnað á Listasafni Íslands

Nöfn frá vinstri: Hildur Jörundsdóttir, Auður Edda Jökulsdóttir, Dorothée Maria Kirch, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Börkur Arnarson og Auður Jörundsdóttir. Á myndina vantar Helga Þorgils Friðjónsson, Hlyn Helgason og Hörpu Þórsdóttur úr verkefnahópi um gerð myndlistarstefnu. - myndBirgir Ísleifur Gunnarsson

Myndlistarstefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi í maí en henni er ætlað að efla myndlistarmenningu landsins. Myndlistarstefnan á einnig að stuðla að aukinni þekkingu og áhuga almennings á myndlist og bæti lífsgæði og ánægju.

Hópurinn sem stóð að vinnunni við stefnuna kom saman í Listasafni Íslands í tilefni af því að stefnan hefur verið gefin út. 

„Ef menningu er ekki sinnt, þá missir þjóðin sál sína,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra meðal annars í ræðu sinni. Hún sagði gríðarlega mikilvægt skref að ná að gefa út stefnuna og fá hana samþykkta á Alþingi.

Í myndlistarstefnunni er fjallað um framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 með meginmarkmiðum um að á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning, stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt og að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein. Er einnig fjallað sérstaklega um að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.

Með myndlistarstefnunni eru lagðar til markvissar aðgerðir til að einfalda en að sama skapi styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist.

„Þetta mikilvæga skref er eitt af mörgum slíkum sem stigin hafa verið á undanförnum árum til að bæta umhverfi menningar- og skapandi greina á Íslandi. Við höfum unnið með skipulögðum hætti á þessari vegferð og það er gaman að sjá eftirtektarverðan árangur raungerast,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra um stefnuna. 

„Framtíðarsýnin er að myndlist leiki stórt hlutverk í samfélaginu og verði órjúfanlegur hluti af menntun, þroska og daglegu lífi fólks um allt land, óháð aðstæðum.“ 

Verkefnahóp um gerð myndlistarstefnu skipuðu Hildur Jörundsdóttir, Auður Edda Jökulsdóttir, Dorothée Maria Kirch, Börkur Arnarson, Auður Jörundsdóttir, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hlynur Helgason og Harpa Þórsdóttir.

Í myndlistarstefnunni eru fjögur meginmarkmið:

  • Á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning
  • Stuðningskerfi myndlistar á Íslandi sé einfalt og skilvirkt
  • Íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein
  • Íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum