Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2023 Forsætisráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Aðgerðir ríkisstjórnar til eflingar viðbúnaði á gossvæðinu

Aðgerðir ríkisstjórnar til eflingar viðbúnaði á gossvæðinu - myndMynd/Almannavarnir

Ríkisstjórnin hefur á undanförnum tveimur árum staðið fyrir aðgerðum sem stuðla að aukinni samhæfingu og bættu viðbragði við væntum eldsumbrotum á Reykjanesi. Aðgerðirnar hafa verið undirbúnar af hópi ráðuneytisstjóra sem ríkisstjórnin kom á fót þegar gosið við Fagradalsfjall hófst árið 2021 og hefur það hlutverk að efla samhæfingu stjórnkerfisins í tengslum við eldsumbrotin á Reykjanesi, stuðla að hröðum og öruggum viðbrögðum á svæðinu þegar á þarf að halda, ásamt því að styðja við vinnu heimaaðila tengda umbrotunum og tryggja um leið fyllsta öryggi íbúa.

Hópurinn starfar undir forystu forsætisráðuneytisins en er einnig skipaður fulltrúum frá dómsmálaráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, innviðaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Með hópnum hafa einnig starfað fulltrúar frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sveitarfélögum á svæðinu, þ.e. Grindavík, Vogum, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ, auk fulltrúa frá þeim stofnunum og embættum sem hlutverki gegna í tengslum við eldsumbrotin og viðbrögð við þeim.

Hópurinn, sem enn er að störfum, hefur fundað reglulega síðan árið 2021 og hrint af stað fjölmörgum verkefnum, svo sem:

  • Innviðir hafa verið kortlagðir á svæðinu og sérstöku teymi komið á fót um afhendingaröryggi vatns og raforku á svæðinu. Teymið skilaði skýrslu sinni nýverið til ráðherranefndar um samræmingu mála en skýrslan sætir nú rýni með tilliti til þjóðaröryggis.
  • Sviðsmyndir hafa verið unnar varðandi hraunflæði miðað við mismunandi upptök goss, sem auðvelda mögulegt viðbragð með hliðsjón af öryggi innviða og íbúa.
  • Veittar hafa verið um 90 milljónir króna, að tillögu Umhverfisstofnunar, til kaupa á gasmælum fyrir þau byggðarlög þar sem líkur eru á gosmengun geti farið yfir heilsuverndarmörk.
  • Tryggð hefur verið fjármögnun til að standa fyrir landvörslu á gossvæðinu við Litla-Hrút. Eru nú tveir landverðir á svæðinu á virkum dögum og þrír um helgar, sem munu leiðbeina fólki við gosstöðvarnar.
  • Þá hefur fjármagn verið veitt til að Brunavarnir Suðurnesja, í samráði við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, hafi sjúkraflutningamenn og viðeigandi búnað staðsettan á gossvæðinu.
  • Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur undanfarna mánuði unnið að uppfærslu á vefnum Safetravel.is og samsvarandi smáforriti. Safetravel verkefnið hefur skipt sköpum í því að stuðla að auknu öryggi ferðamanna með skilvirkri upplýsingamiðlun.
  • Ríkisstjórn veitti auk þessa björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík 10 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu á fundi sínum í dag en mikið hefur mætt á björgunarsveitinni sem hefur gegnt forystuhlutverki í björgunar- og eftirlitsstörfum á gossvæðinu. Fyrirhugað er að styrkurinn nýtist þeim björgunarsveitarmönnum sem eru að störfum á gossvæðinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum