Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Moody´s staðfestir A2 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs en breytir horfum í jákvæðar

Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody´s Investor Service (Moody´s) hefur breytt horfum um lánshæfi ríkissjóðs úr stöðugum í jákvæðar og staðfest A2 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs.

Helstu drifkraftar fyrir breytingu á horfum til jákvæðra eru:

1. Góður árangur stjórnvalda í að draga úr hallarekstri ríkissjóðs og lækkandi skuldahlutfall hins opinbera sem eykur líkur á að styrkur opinberra fjármála verður endurheimtur hraðar en áður var talið.

2. Auknar líkur eru á að sterkar vaxtarhorfur lykilatvinnuvega og áframhaldandi viðleitni til að auka fjölbreytni í efnahagslífi, dragi úr áhrifum áfalla á hagkerfið í framtíðinni.

A2 lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspeglar annars vegar hátt auðlegðarstig og sterka stofnanaumgjörð, en smæð hagkerfisins og sveiflur í hagvexti vega á móti. Þrátt fyrir aukna fjölbreytni efnahagslífs er Ísland næmt fyrir áföllum í einstökum atvinnugreinum, einkum ferðaþjónustu. Þrátt fyrir viðsnúning í opinberum fjármálum eru skuldamælikvarðar íslenska ríkisins enn óhagstæðir í samanburði við önnur sambærileg hagkerfi.

Ef bati í afkomu hins opinbera heldur áfram með þeim hraða sem vænst er og skuldir hins opinbera lækka enn frekar líkt og væntingar eru um, gæti það haft áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs til hækkunar. Farsælt uppgjör á ábyrgð á skuldum Íbúðalánasjóðs gæti leitt til hratt lækkandi skuldahlutfalla og hefði einnig jákvæð áhrif á lánshæfismatið. Hjöðnun verðbólgu og lækkun verðbólguvæntinga á ný samhliða því sem áframhaldandi kröftugur hagvöxtur er tryggður, myndu styðja við mat Moody's á sterkri stofnanaumgjörð og væri jákvætt fyrir lánshæfið. Þá bendir matsfyrirtækið einnig á að frekari vísbendingar um að viðleitni til að auka fjölbreytni í efnahagslífinu stuðli að minni hagsveiflum, myndu einnig styðja við hærri lánshæfiseinkunn.

Horfum gæti verið breytt í stöðugar á ný ef væntingar Moody's um bætta stöðu opinberra fjármála og efnahagsmála gangi ekki eftir. Lánshæfismatið gæti lækkað ef stjórnvöld myndu víkja verulega frá núverandi áætlunum sínum um bætta afkomu hins opinbera á næstu árum sem myndu leiða til hækkunar skuldahlutfalls hins opinbera.

Fréttatilkynning Moody's (pdf)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum