Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2023 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Staða Íslands gagnvart heimsmarkmiðunum kynnt á ráðherrafundi um sjálfbæra þróun

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna - mynd

Staða Íslands og vinna í þágu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna verður kynnt á árlegum ráðherrafundi um sjálfbæra þróun í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur myndbandsávarp og þá flytja Rebekka Karlsdóttir, ungmennafulltrúi á sviði sjálfbærrar þróunar, og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, einnig ávörp. Eggert Benedikt Guðmundsson, leiðtogi á sviði sjálfbærrar þróunar hjá forsætisráðuneytinu, fer fyrir sendinefnd Íslands og svarar spurningum úr sal í kjölfar kynningarinnar. 

„Gildistími heimsmarkmiðanna er nú hálfnaður og okkur miðar of hægt áfram. Ríki heims þurfa að auka metnað sinn aðgerðum í þágu heimsmarkmiðanna. Ísland hefur tekið nokkur afgerandi skref frá því síðasta stöðuskýrsla var kynnt árið 2019 og má þar til að mynda nefna stofnun Sjálfbærs Íslands og sjálfbærniráðs. Á þeim vettvangi stendur nú yfir vinna við mótun innlendrar stefnu um sjálfbæra þróun, með heimsmarkmiðin að leiðarljósi, og stefnum við á að ljúka þeirri vinnu fyrir lok þessa árs,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Ráðherrafundurinn (e. High Level Political Forum, HLPF) er hinn eiginlegi eftirfylgnivettvangur Sameinuðu þjóðanna með heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. Þar gefst ríkjum tækifæri til þess að leggja fram landrýniskýrslur (e. Voluntary National Reviews, VNRs) þar sem þau greina frá stöðu sinni og aðgerðum í þágu heimsmarkmiðanna og kynna niðurstöðurnar á fundinum. Mælst er til þess að ríki geri þetta að minnsta kosti þrisvar sinnum á gildistíma markmiðanna og var þetta í annað sinn sem Ísland skilar inn skýrslu og kynnir sínar niðurstöður. 

Í skýrslunni er meðal annars að finna mat stjórnvalda á stöðu Íslands gagnvart heimsmarkmiðunum og til samanburðar er þar einnig að finna stöðumat frjálsra félagasamtaka. Í henni er einnig að finna kafla sem skrifaðir voru af ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands.

Skýrsluna má nálgast hér: Landrýniskýrsla Íslands um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 2023.

Fylgjast má með kynningunni í beinu streymi kl. 19.00 í kvöld hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum