Hoppa yfir valmynd
27. júlí 2023 Innviðaráðuneytið

Grænbók um skipulagsmál í samráðsgátt

Grænbók um skipulagsmál hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Grænbókin er liður í endurskoðun á landsskipulagsstefnu 2015-2026. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 24. ágúst nk.

Í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og lög nr. 30/2023 um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála leggur ráðherra fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til fimmtán ára. Í tillögunni skal felast endurskoðun á gildandi landsskipulagsstefnu þegar þörf er á, ásamt greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu. Í landsskipulagsstefnu eru samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun og nýtingu og vernd auðlinda haf- og strandsvæða með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Grænbókin byggir m.a. á fyrirliggjandi gögnum frá Skipulagsstofnun og öðrum opinberum aðilum, vinnu starfshópa, rafrænni spurningakönnun meðal sveitarfélaga, opnu samráði við almenning og aðra hagaðila, m.a. með fundaröðinni „Vörðum leiðina saman“ sem haldin var í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, sem og rafrænni spurningakönnun meðal ungs fólks.

Grænbókin leggur grunn að endurskoðun landsskipulagsstefnu til næstu ára. Í henni er stöðumat og drög að lykilviðfangsefnum, framtíðarsýn og áherslum, sem og nálgun við mat á umhverfisáhrifum. Samhliða grænbók eru drög að greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu í kynningu sem viðauki.

Mikilvægt er að fá fram skoðanir og álit almennings og annarra hagaðila og eru því öll hvött til að kynna sér efni grænbókarinnar og senda umsögn sína inn í samráðsgáttina. Á grundvelli hennar verður unnið stefnuskjal eða svokölluð hvítbók og í framhaldinu þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu til 15 ára og fimm ára aðgerðaáætlun.

Stefnt er að því að tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu ásamt greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála verði lögð fram á haustþingi. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum